Áströlsk yfir­völd hafa nú boðið eina milljón ástralskra dala í laun fyrir þann sem að hefur upp­lýsingar sem geta að­stoðað yfir­völdum að finna hina fjögurra ára Cleo Smith sem hvarf úr tjaldi for­eldra sinna að­fara­nótt síðasta laugar­dags, 16. októ­ber.

Ástralska lög­reglan hefur viður­kennt að þau hafa fáar vís­bendingar, engan grunaðan og vita ekkert um hvar Cleo er.

„Þetta er sorg­leg staða og mjög erfið staða. Aug­ljós­lega er hugur okkar hjá öllum sem tengjast málinu, sér­stak­lega fjöl­skyldu og vinum Cleo. Við erum búin að tryggja að lög­regla hafi fengið öll þau úr­ræði sem þau hafa óskað eftir í tengslum við þetta mál. Lög­reglan er við leit allan sólar­hringinn og eru að reyna að finna Cleo núna,“ sagði Mark McGowan við blaða­menn en hann er eins­konar for­sætis­ráð­herra í Vestur-Ástralíu, þar sem að Cleo týndist.

Hann sagði að öllum þeim sem hafa ein­hvers konar upp­lýsingar sem leiða til þess að Cleo finnist verði launað það með einni milljón ástralskra dala en það sam­svarar um 97 milljónum ís­lenskra króna. McGowan sagði að hann vonaði að upp­hæðin myndi leiða til þess að stað­setning Cleo yrði ljós sem fyrst.

„Ég hvet alla sem hafa ein­hverja vit­neskju um það hvar Cleo er, að upp­lýsa lög­reglu um það svo við getum veitt fjöl­skyldu Cleo ein­hverjar upp­lýsingar. Og vonandi komið henni heim aftur öruggri,“ sagði McGowan.

Yfir­lög­reglu­full­trúinn Col Blanch sagði að verð­launa­féð væri stórt skref í áttina að því að finna Cleo með því að virkja nær­sam­fé­lagið.

„Það veit ein­hver í sam­fé­laginu okkar hvað kom fyrir Cleo. Ein­hver er með upp­lýsingar sem geta hjálpað. Núna eru milljón á­stæður fyrir því að stíga fram með þessar upp­lýsingar,“ bætti hann við.

Skoða myndbandsupptökur og ræða við fólk

Fram kemur í um­fjöllun ástralska miðilsins News.comað rætt hafi verið við alla kyn­ferðis­brota­menn sem eru skráðir nærri tjald­svæðinu sem hún hvarf á, alla gesti tjald­svæðisins og að einnig hafi verið rætt við líf­fræði­legan föður Cleo. En þrátt fyrir það sé lög­reglan með lítið í höndunum.

Næstu skref lög­reglunnar eru sögð að skoða mynd­efni úr mynda­vélum nærri tjald­svæðinu og að biðja fólk sem ók í gegnum eða nærri svæðinu, sem er með mynda­vélar í bílum sínum, að skoða upp­tökurnar auk þess að skoða til­kynningar um að heyrst hafi í bíl um þrjú­leytið um nóttina á tjald­svæðinu.

Rann­sókn lög­reglunnar er bæði leit og saka­mála­rann­sókn en fram kemur í frétt News.com að nýjar upp­lýsingar sem greint var frá í gær bendi til þess að um sé að ræða mann­rán. Talið er ó­lík­legt að Cleo hafi sjálf náð í renni­lásinn á tjaldinu til að opna það og fara sjálf út en margir út­gangar eru á tjaldinu og var, að sögn lög­reglunnar, einn þeirra opinn, sem hefur valdið lög­reglunni miklum á­hyggjum.

Yfirleitt myrt stuttu eftir að þau eru tekin

Graham Hill, sem rann­sakaði hvarf Madelein­e Mc­Cann í Portúgal fyrir um ára­tug, sagði í við­tölum í vikunni að lík­legast sé að börn, sem er rænt, séu myrt um þremur til sex klukku­stundum eftir að þau eru tekin og að oftast sé það ein­hver ná­kominn þeim sem hefur gert þeim mein.

Cleo sást síðast um klukkan 1.30 að­fara­nótt laugar­dags þegar hún vaknaði til að fá sér að drekka um nóttina. For­eldrar hennar upp­götvuðu að hún væri horfin um klukkan sex um morguninn þegar móðir hennar vaknaði og sá að tjaldið var gal­opið og dóttir hennar hvergi sjáan­leg.

Þau hafa sagt í við­tali að þau telji ó­lík­legt að hún hafi ráfað burtu sjálf og að hún hefði alltaf beðið um hjálp við að komast úr svefn­pokanum eða úr tjaldinu, en svefn­poki Cleo hefur heldur ekki fundist.