Skrifstofa velferðarsviðs Reykjavíkurborgar tók leigubíla fyrir rúmar sex milljónir króna á tveimur árum. Kostnaður borgarinnar vegna leigubíla nam 431 milljón króna á síðustu átta árum. Kostnaðurinn hefur aukist ár frá ári síðan 2011 og var 69 milljónir á árinu 2018. Þetta kom fram í svari fjármála- og áhættustýringarsviðs, við fyrirspurn Kolbrúnar Baldursdóttur, oddvita Flokks fólksins.

Alls á Reykjavíkurborg 105 bíla, þar af 56 fólksbíla. Í bókun Kolbrúnar segir að hún hafi séð starfsmenn borgarinnar koma á viðburð í leigubíl, í eitt skipti hafi verið einn starfsmaður í bílnum.

Í bókun borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins er vakin athygli á að Reykjavíkurborg hafi greitt starfsmönnum tvo milljarða króna fyrir akstur á eigin bifreiðum frá árinu 2011. „Samtals um milljón á dag. Loks hefur borgin keypt flugmiða fyrir tæpar þrjú hundruð milljónir á síðustu átta árum.“ Þá hafi ekki verið farið í útboð í þessum málum þó að fjárhæðirnar séu langt yfir viðmiðunarfjárhæðum.