Reykjavíkurborg hefur samþykkt í innkaupa- og framkvæmdaráði að kaupa níu þúsund lampa fyrir ljósastaura fyrir 1,1 milljarð króna. Gert er ráð fyrir að lamparnir verði búnir að greiða sig upp á sex til sjö árum en líftími lampa er áætlaður 20 til 25 ár.

Í Reykjavík eru um 25.200 lampar í eigu Reykjavíkurborgar og 7.700 lampar í eigu annarra. Borgin er þegar búin að skipta út 12 þúsund lömpum en fjögur þúsund lampar eru til á lager og bíða þess að verða settir upp. Tveir verktakar eru að vinna að uppsetningu þeirra.

„Borgin verður að einhverju leyti bjartari með nýrri lýsingu vegna þess að eldri lampar hafa veðrast með tímanum. Nýja lýsingin leggur einnig meiri áherslu á lýsingu fyrir gangandi og hjólandi,“ segir í svari borginnar við fyrirspurn Fréttablaðsins.

Í svarinu segir að rafmagnskostnaður fyrir gatnalýsinguna sé 60 þúsund krónur á klukkustund þar sem Reykjavíkurborg greiðir 38.400 krónur en aðrir notendur 21.600 krónur.

Viðhaldsgjald sé 750 þúsund krónur á dag alla daga ársins og þar af greiðir Reykjavíkurborg 480 þúsund krónur á dag.