Einyrkjar og litlir rekstraraðilar sem orðið hafa fyrir verulegum tekjumissi vegna heimsfaraldurs og sóttvarnaaðgerða stjórnvalda, geta fengið tekjufallsstyrki verði frumvarp sem samþykkt var í ríkisstjórn í gær að lögum. Verja á rúmum fjórtán milljörðum króna í verkefnið.

Styrkjunum er meðal annars ætlað að styðja minni rekstraraðila í menningar- og listgreinum, ferðaleiðsögumenn og aðra minni rekstraraðila.

Í tilkynningu segir að styrkirnir muni jafngilda rekstrarkostnaði á tímabilinu frá 1. apríl 2020 til 30. september 2020 en að hámarki 400 þúsund krónum fyrir hvert stöðugildi á mánuði.

Skilyrði til að fá tekjufallsstyrk er að umsækjandi hafi orðið fyrir 50 prósenta tekjufalli á tímabilinu 1. apríl til 30. september 2020, að ekki starfi fleiri en þrír launamenn hjá umsækjanda og að umsækjandi hafi skattskyldu á Íslandi, lágmarksveltu og skilvísi á opinberum gjöldum og gögnum til Skattsins.

Forsætisráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra kynntu, tíu stuðningsaðgerðir stjórnvalda fyrir listir og menningu í Hörpu í gær.

Auk tekjufallsstyrkja er áformað að hækka starfslaun og styrki til listamanna tímabundið fyrir árið 2021 og framlengja tímamörk verkefnastyrkja til menningarmála.

Þá mun ríkisstjórnin standa að stofnun Sviðslistamiðstöðvar og Tónlistarmiðstöðvar og efna til vitundarvakningar um mikilvægi lista og menningar á Íslandi.

Aðgerðirnar verða kynntar nánar á næstu vikum en þær eru sagðar vera fjölþættar og miða að því að bæta stöðu starfandi listamanna og menningartengdra fyrirtækja, að sögn stjórnvalda.

„Staða listamanna og fólks í skapandi greinum hefur verið flókin og erfið frá fyrsta degi samkomu­banns. Hefðbundin úrræði sem grípa eiga fólk í erfiðri stöðu á vinnumarkaði hafa ekki nýst listamönnum sem skyldi. Því eru þetta kærkomnar aðgerðir sem bæta tap og brúa tíma sem við öll vonum að verði sem stystur,“ sagði Erling Jóhannesson, forseti Bandalags íslenskra listamanna, sem tók þátt í kynningu aðgerðanna ásamt Þórunni Sveinbjarnardóttur, formanni Bandalags háskólamanna.

Erling sagði að í þessum aðgerðum væru að auki verkefni sem myndu bæta framtíð greina og stöðu listamanna.

„Bæði á vinnumarkaði og í þeirra mikilvæga hlutverki að lita heiminn bjartari litum,“ sagði Erlingur.