„Þetta er heljarinnar framkvæmd og fjárfesting,“ segir Sigurjón Örn Þórsson, framkvæmdastjóri Kringlunnar. Til stendur að endurskipuleggja og breyta þriðju hæð verslunarmiðstöðvarinnar.

Breytingar eru unnar í samstarfi við David Martin frá M Worldwide og THG Arkitekta, og leiðir arkitektinn Paolo Gianfrancesco verkið.

„Um er að ræða svæðið frá bílastæðum austan megin Kringlunnar við Borgarleikhúsið og að rúllustigunum við enda bíógangsins,“ segir Sigurjón.

Breytingarnar munu kosta um einn milljarð króna og taka um 18-24 mánuði. „Markmiðið með breytingunum er að búa til nýjan áfangastað í Kringlunni sem lifir dálítið sjálfstæðu lífi,“ segir Sigurjón.

Opnunartími þriðju hæðarinnar verður lengri en hefðbundinn opnunartími Kringlunnar og áhersla verður lögð á mat, afþreyingu og heilsu. Verslanir sem fyrir eru á þriðju hæð munu flytja á annan stað í húsinu og þar verður meðal annars opnuð ný mathöll.

Breytingarnar eiga að taka eitt og hálft til tvö ár.
Fréttablaðið/Eyþór

„Við erum í þeim fasa núna að færa til starfsemi til að losa um fyrir þær framkvæmdir sem fram undan eru,“ segir Sigurjón. „Í næsta áfanga er uppbygging nýrrar mathallar sem mun leysa Stjörnutorg af hólmi en þó á öðrum stað og þannig rýma fyrir svæði sem mun hýsa um þúsund fermetra afþreyingarsvæði,“ bætir hann við.

Sigurjón segir viðræður um afþreyingu á svæðinu enn í gangi en að hann geti fullyrt að um nýjungar á Íslandi sé að ræða fyrir fólk á öllum aldri. „Ævintýraland verður tekið í gegn og afþreyingu bætt við fyrir eldri hópa, frá aldrinum 10 og upp úr,“ segir hann.

Framkvæmdir eru nú þegar hafnar og nýlega opnaði World Class nýja líkamsræktarstöð í Kringlunni sem er hluti af breytingunum. Þá opnar von bráðar veitingastaðurinn Finnson Bistro á þriðju hæðinni. „Þar verður ýmislegt nýtt af nálinni, meðal annars búbblublómaskáli sem ætti að tikka í box hjá vinkonu­hópum til dæmis,“ segir Sigurjón.

„Við erum líka í þeirri sérstöku aðstöðu að hafa leikhús innangengt í húsinu og með þessum breytingum getum við sinnt leikhúsgestum betur,“ segir Sigurjón og bætir við að breytingarnar séu einnig kærkomnar fyrir fólk sem býr í nágrenni við Kringluna. „Þarna verður hægt að koma og fá sér kvöldverð og sækja afþreyingu fram eftir kvöldi,“ segir hann.
Fbl_Megin: Sigurjón segist ekki gera ráð fyrir að loka þurfi Kringlunni eða hluta hennar vegna framkvæmdanna, unnið verði að þeim í áföngum svo sem minnst rask hljótist vegna þeirra.