Lögreglan lagði hald á tæp 100 kíló af kókaíni sem voru falin í vörusendingu á leið til landsins. Samkvæmt tölum SÁÁ frá 2020 kostaði grammið af kókaíni um 14 þúsund krónur en það gerir verðmæti sendingarinnar 1,4 milljarða króna.

Fullyrt var við Fréttablaðið að grammið kostaði 18 þúsund krónur en þá myndi verðmæti sendingarinnar hækka um 400 milljónir og fara í 1,8 milljarða króna.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru þrír úrskurðaðir í fjögurra vikna áframhaldandi gæsluvarðhald, eða til 14. september, í þágu rannsóknarinnar í Héraðsdómi Reykjavíkur. Einn til viðbótar sat í gæsluvarðhaldi vegna málsins, en sá hefur verið færður í afplánun vegna annarra mála. Er málið tilkomið vegna frumkvæðisrannsókna á skipulagðri brotastarfsemi og miðar rannsókn þess vel.