Há­skólinn í Suður-Kali­forníu, USC, hefur sam­þykkt að greiða rúman milljarð Bandaríkjadala í bætur til hundruð kvenna sem sökuðu Geor­ge Tyndall, kven­sjúk­dóma­lækni sem starfaði við skólann, um kyn­ferðis­of­beldi en há­skólinn kemur til með að greiða 710 konum 852 milljón ­dali vegna málsins. Há­skólinn hafði áður sam­þykkt að greiða 215 milljón dali til kvenna sem höfðu lent í Tyndall.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið er um að ræða hæstu upp­hæð sem greidd hefur verið í bætur í tengslum við kyn­ferðis­of­beldi í skólum á fram­halds­stigi í Banda­ríkjunum en upp­hæðin sam­svarar í heildina rúm­lega 135 milljörðum ís­lenskra króna. Áður hafði Há­skólinn í Michigan-ríki greitt 500 milljón dali í bætur vegna kyn­ferðis­of­beldis af hálfu Larry Nasser.

„Ég biðst inni­legrar af­sökunar fyrir sárs­aukann sem með­limir há­skólans hafa upp­lifað. Við erum þakk­lát fyrir hug­rekki þeirra sem stigu fram og vonum að þessi lausn veiti konunum sem Geor­ge Tyndall beitti of­beldi ein­hverja að­stoð,“ sagði for­seti há­skólans, Carol Folt, í yfir­lýsingu um sátta­greiðslurnar. Folt tók við sem for­seti há­skólans árið 2019 eftir að fyrr­verandi for­setinn hafði sagt af sér vegna málsins.

Neitar sök

Tyndall var hand­tekinn árið 2019 vegna málsins og hefur form­lega verið á­kærður fyrir að beita 16 konur kyn­ferðis­legu of­beldi meðan hann starfaði við skólann en fleiri hundruð kvenna hafa sakað Tyndall um kyn­ferðis­lega á­reitni eða of­beldi. Hann er meðal annars sakaður um að hafa káfað á nem­endum og tekið myndir við læknis­skoðun.

Þrátt fyrir að ásakanir gegn Tyndall hafi ekki verið rannsakaðar fyrr en árið 2016 hafa margar konur stigið fram og sakað skólann um að reyna að hylma yfir með Tyndall þar sem áður hafði verið kvartað yfir honum.

Sjálfur neitar Tyndall al­farið sök en hann hafði starfað við skólann í þrjá ára­tugi áður en hann steig til hliðar árið 2017 eftir að í ljós kom að hann hafi átt í ó­við­eig­andi sam­skiptum við sjúk­linga. Hann bíður nú réttar­halda vegna málsins en á­kærurnar gegn honum eru í 29 liðum og ná til tíma­bilsins 2009 til 2016. Hinn 74 ára Tyndall á yfir höfði sér margra ára fangelsis­vist verði hann fundinn sekur.