Vilhjálmur Ingi Vilhjálmsson, formaður Hinsegin daga, segir ákvörðunina ekki hafa verið erfiða þó að hún hafi verið langt frá því að vera skemmtileg.

„Við tókum ákvörðun um að aflýsa öllu strax eftir fundinn í síðustu viku þegar hert var á samkomutakmörkunum,“ segir Vilhjálmur en strax í mars var orðið ljóst að ekki gæti orðið af Gleðigöngunni sjálfri í hefðbundinni mynd, aðrir viðburðir voru þó enn í farvatninu þar til í síðustu viku.

„Þegar settar voru reglur um að ekki mættu koma saman fleiri en tvö þúsund manns var ljóst að Gleðigangan yrði ekki gengin eins og vanalega. Í hana hafa sótt í kringum 80 þúsund manns í gegnum tíðina.“

Þrátt fyrir að ljóst væri að ekki yrði af stórri Gleðigöngu voru Vilhjálmur og hans fólk ekki af baki dottin og leituðu leiða til að fagna deginum. „Við hvöttum hópa til að fara í sínar eigin gleðigöngur og ætluðum að hafa einhverja viðburði í kringum það en erum hætt við það eins og alla aðra viðburði.

Þetta var ekki erfið ákvörðun því það var ekki stætt á öðru en hún var vissulega ekki skemmtileg. Ástandið er bara bara þannig að það er ekkert annað í stöðunni.“

Þrátt fyrir að ekki verði af opinberum viðburðum er ætlunin að fagna deginum og ekki síst halda umræðunni á lofti. „Við höfum sett þetta svolítið í hendurnar á fólki, að vera lifandi á samfélagsmiðlum og reyna að vera eins sýnileg og þau geta. Svo er stefnan að halda fræðslu- og menningarviðburðunum sem standa átti fyrir til haga og halda þá í vetur þegar ástandið er vonandi orðið betra.

Við hvetjum fólk til að nota myllumerkið #hinseginheima, og erum þá aðallega að tala til hinsegin fólks en líka allra hinna, enda höfum við ekkert á móti „straight“ fólki,“ segir Vilhjálmur í léttum tón.

Ósýnilegur raunveruleiki


„Gangan hefur verið svo mikilvæg fyrir hinsegin fólk sem sjálft er ekki í göngunni, er kannski ekki komið út úr skápnum eða ekki búið að finna sig. Það fólk fær ekki endilega mörg tækifæri til að spegla sig í fjölmiðlaumfjöllun og þar fram eftir götunum. Okkar raunveruleiki er ekki mikið til sýnis.“

Vilhjálmur segir fólk leyfa hugmyndafluginu að ráða þegar kemur að því að vekja athygli á málefninu með umræddu myllumerki. „Ég veit að ein fjölskylda ætlar að baka regnbogakökur með börnunum og lesa hinsegin barnabækur. Margir ætla líka í gleðigöngutúr með fjölskyldum sínum og vinum og vera sýnileg með fánann með í för – ég býst við að það verði fjölmargar míkró gleðigöngur um bæinn. Fólk ætlar að gera sér glaðan dag innan settra marka.“

Aðspurður segist Vilhjálmur ekki búinn að skipuleggja daginn í þaula. „Ætli ég fái mér ekki góðan árbít og skelli mér svo í göngutúr með fána. Svo ætla ég auðvitað að horfa á hinsegin hátíðarhöldin Stolt í hverju skrefi á RÚV um kvöldið.“

Klukkutíma hátíðardagskrá Hinsegin daga verður á RÚV í kvöld, laugardagskvöld, og segir Vilhjálmur þá hugmynd hafa komið upp á vordögum þegar ljóst var í hvað stefndi.


Hátíðardagskrá á RÚV


„Þegar við sáum fram á að við yrðum ekki með útihátíð fannst okkur tilvalið að koma okkar frábæra listafólki á framfæri og skella í hátíðarhöld á RÚV þar sem fram kemur mikið af okkar fremsta hinsegin listafólki. Til stóð að það yrðu áhorfendur í sal og að Hinsegin kórinn, sem telur 50 manns, myndi syngja en því varð að breyta þegar tveggja metra reglan var sett á. En það verða fjölbreytt dans- og söngatriði með listafólki á öllum aldri.“


Vilhjálmur segist hafa orðið var við neikvæða netumræðu í kringum dagskrá RÚV í vikunni sem er að líða sem hefur verið töluvert tileinkuð málefnum hinsegin fólks. „Það virðist fara illa í suma að horfa daglega upp á efni tengt hinsegin fólki á RÚV. Það segir kannski fremur en annað hvað það er mikill skortur á hinsegin efni í miðlum í dag. Það er margt búið að nást í réttindabaráttunni en hún er hvergi nærri búin og það er þessu fólki og fleiri fordómapúkum að þakka að það er enn í dag fólk sem á erfitt með að koma út úr skápnum og að það séu enn miklir fordómar gegn til dæmis trans-, intersex- og kynsegin fólki.“


„Það er margt búið að nást í réttindabaráttunni en hún er hvergi nærri búin og það er þessu fólki og fleiri fordómapúkum að þakka að það er enn í dag fólk sem á erfitt með að koma út úr skápnum og að það séu enn miklir fordómar gegn til dæmis trans-, intersex- og kynsegin fólki.“

Sendiráðin máttu ekki flagga

Vilhjálmur er á því að umræðan sé ekki síður mikilvæg núna en áður enda sé þróunin í mörgum löndum slæm. „Við sjáum hvað er að gerast í Póllandi þar sem er verið að taka til baka réttindi sem höfðu unnist. Það sama er upp á teningnum í Bandaríkjunum þar sem núverandi stjórnvöld eru gagngert að vinna að því að minnka réttindi hinsegin fólks.

Stjórn Hinsegin daga gaf það út í júnímánuði að samstarfi þeirra við bandaríska sendiráðið sem hafði verið farsælt um margra ára skeið, væri slitið.

„Bandaríkin hafa gagngert verið að vinna að því að taka til baka réttindi sem hinsegin fólk hefur unnið sér inn og notað það sem markaðstæki í utanríkisstefnu. Í fyrra kom meira að segja tilskipun frá forseta Bandaríkjanna um að sendiráðin ættu ekki að flagga regnbogafánanum. Okkur finnst sorglegt að slíta sambandinu við sendiráðið því þar innanbúðar er starfsfólk sem hefur unnið með okkur af heilum hug og er allt af vilja gert.

Við sjáum kannski minna af þessu í pólitíska landslaginu hér en fordómar fá þó oft of mikinn hljómgrunn. Þegar við förum til dæmis að tala um rasisma hér á landi kemur í ljós að fólk heldur oft að það sé fordómalausara en það er.

Við erum öll með fordóma

Íslendingar eru svolítið góðir í að halda að þeir séu fordómalausir. Meðalmaðurinn er kannski orðinn vanur því að hommar og lesbíur séu sýnileg í samfélaginu en það er enn hinsegin fólk sem verður fyrir fordómum frá sinni eigin fjölskyldu, svo ég tali nú ekki um trans- og kynsegin fólk sem verður fyrir miklum fordómum.


Við stöndum okkur ágætlega félagslega en lagalega séð stöndum við ekkert voða framarlega. Maður hefur þó á tilfinningunni að meirihluti samfélagsins vilji breyta þessu til hins betra. Við erum ekki fordómalaus en ég held að þessi tilfinning fólks, að það sé það, sýni að það er alla vega viljugt.

Við verðum að halda áfram að fræða og vera meðvituð um að við erum ekki fullkomin. Við verðum að hætta að segja að hér séu engir fordómar. Ef við höldum áfram og vinnum saman hef ég fulla trú á því að við náum fullu jafnrétti. Þegar maður horfir á 20 ára sögu gleðigöngunnar hefur gríðarlegur árangur náðst og okkur ber að fagna því og vera stolt af því.

Ég hvet fólk til að aðstoða við sýnileikann í dag, flagga regnboga­fánanum en líka muna að það eru allir með einhverja fordóma og þar er ég meðtalinn. Því er um að gera að lesa sér til og fræðast og eiga glaðan og hýran dag.