Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, hefur á­hyggjur af því að staða far­aldursins hér á landi verði að miklu kosninga­máli í haust. Í sam­tali við Frétta­blaðið segist hann greina vís­bendingar um það í stjórn­mála­um­ræðunni hér á síðustu vikum.

Jóhannes opnaði á um­ræðuna um þetta í Face­book færslu í gær­kvöldi. Hann segir kosningarnar verða að snúast um það hvernig flokkarnir ætli að tækla efna­hags­mál og sam­fé­lags­mál á næsta kjör­tíma­bili. „Ekki um það hvort farið hafi verið ná­kvæm­lega eftir til­lögum í minnis­blöðum sótt­varnar­læknis eða hvernig bólu­setningá­ætlun hafi gengið eða fleira í þeim dúr,“ skrifar Jóhannes.

„Við höfum séð það í öðrum löndum að þetta hefur tekið yfir um­ræðuna fyrir kosningar. Jafn­vel eitt­hvað sem manni hefur utan­frá fundist vera hálf­gerð smá­at­riði, verða að risa­stórum at­riðum sem eru svo skegg­rædd dögum eða jafn­vel vikum saman fyrir kosningar og þá hverfa öll raun­veru­legu og mikil­vægu málin inn í hýtina,“ segir hann.

Þau nái þá ekki at­hyglum og eyrum kjós­enda. „Þá verður ekki tæki­færi til að ræða þau í fjöl­miðlum og ýta undir hina lýð­ræðis­legu um­ræðu um það hvernig menn ætla að gera sam­fé­lagið betra. Það er fleira en CO­VID sem við þurfum að velta fyrir okkur næstu fjögur ár,“ út­skýrir Jóhannes.

„Þetta er eitt­hvað sem maður sér vís­bendingar um hér svona í stjórn­mála­um­ræðunni, við skulum segja síðustu vikur. Það er alveg eins hér eins og annars­staðar tend­ens til að stjórn­málin fari að takast á um þessi at­riði, hvað hafi tekist vel og illa í þessum far­aldri og hvort farið hafi verið eftir hinu og þessu eða ekki og svo fram­vegis,“ segir hann.

„Ég held bara að akkúrat núna þurfum við á ein­hverju öðru að halda frá stjórn­mála­mönnum og fjöl­miðlum heldur en að sökkva sér ofan í þetta fyrir kosningar því það eru svo miklu stærri og mikil­vægari mál sem þarf að ræða. Hvernig komumst við upp úr þessum skurði? Við eigum ekki alltaf að vera að tala um skurðinn, við eigum að reyna að finna leiðina út úr honum, það er það sem þetta snýst um.“

Að­spurður út í um­mæli Þór­dísar Kol­brúnar R. Gylfa­dóttur, ferða­mála­ráð­herra, um að ríkis­stjórnin hafi hafist handa við að greina stefnu og fram­tíðar­sýn um við­brögð við far­aldrinum, svarar Jóhannes því játandi að Sam­tök ferða­þjónustunnar fagni þeim á­ætlunum.

„Já já, ég held það sé mjög mikil­vægt. Það hljómar vel að þessar tvær, þrjár vikur verði nýttar til að skoða hvaða fram­tíðar­sýn menn ætla að horfa á, hvort á­fram á að horfa á fjölda smita eða hvort horfa eigi á álag á heil­brigðis­kerfið og al­var­leg veikindi, það eru ýmsar svona spurningar sem að liggja fyrir stjórn­völdum akkúrat núna.“

Jóhannes segir þetta at­riði sem stjórn­völd þurfi að leggja fram. „Og það er alveg eðli­legt að þetta sé eitt af því sem er rætt fyrir kosningar, stefna og hvernig menn ætla að vinna þetta á­fram. En yfir­gnæfandi um­ræða um far­aldurinn og sér­stak­lega ein­hverja núansa í ein­hverjum sótt­vörnum og hver hafi gert hvað eða ekki, er ein­fald­lega eitt­hvað sem við bara þurfum ein­fald­lega ekki á að halda sem sam­fé­lag akkúrat núna fyrir þessar kosningar. Það eru bara miklu stærri sam­fé­lags­mál í húfi.“