„Við bindum miklar vonir við að Búrfellslundur fari í nýtingarflokk eftir mikla endurhönnun á framkvæmdinni,“ segir Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar um vindorkulund austan Þjórsár og þar sem Landsvirkjun hefur rekið tvær vindmyllur í rannsóknarskyni síðan 2012.

Úr 67 vindmyllum í þrjátíu

Umræða um 3.áfanga Rammaáætlunar er á næsta leiti í Umhverfis-og samgöngunefnd Alþingis en í áætluninni var Búrfellslundur settur biðflokk. „Ásýndinni var mikið breytt og sjónræn truflun var minnkuð mjög mikið,“ segir Hörður en Búrfellslundur hafi verið endurhannaður í samræmi við athugasemdir og ábendingar sem bárust við umhverfismat og 3. áfanga Rammaáætlunar. Lögð var áhersla á að lágmarka sjónræn áhrif lundarins og hefur ný útfærsla í för með sér talsvert minni sýnileika frá ferðamannaleiðum og nærliggjandi ferðamannastöðum. Með endurhönnuninni hefur umfang Búrfellslundar verið minnkað í afli úr 200 MW í 120 MW. Ennfremur hefur fjöldi vindmylla verið minnkaður úr 67 í allt að 30 og lundurinn minni en áður var lagt til, fari úr 33 í 18 ferkílómetra.

Nú þegar rask á svæðinu

Búrfellslundur er á stærsta vinnslusvæði fyrirtækisins sem hefur þar sjö vatnsaflsstöðvar í rekstri. Staðarvalið dregur úr umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar enda eru háspennulínur, vegir og önnur mannvirki þegar til staðar á svæðinu, segir á vef Landsvirkjunar. Vindmyllurnar myndu ná yfir hraunsléttu á milli Búrfellsvirkjunar og Sultartangavirkjunar.

Breytingar eftir umhverfismat

Umhverfismatinu á vindmyllugarðinum lauk í desember 2016 en fyrr um árið skilaði verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar tillögum sínum til umhverfis- og auðlindaráðherra. Rammaáætlunin er óbreytt frá þeim tíma. Helst þótti í fyrstu tillögum áhrif Búrfellslundar verða mikil á útivist og ferðmennsku. Með breytingum verðu lund­ur­inn ekki sýni­leg­ur frá Stöng eða Gjánni og með því að reisa vind­myll­urn­ar á breyttum stað skerðist ekki út­sýni að Heklu.

Vindmyllurnar verða um 150 m háar, þ.e. samanlögð hæð masturs og spaða í hæstu stöðu, samkvæmt upplýsingum Landsvirkjunar.

Frestur til að skila inn umsögnum um þingsályktunartillögu um Rammaáætlun rennur út eftir þessa viku eða 8.febrúar.

Lítil áhrif á fugla

Náttúrustofa Norðaustanlands rannsakaði fuglalíf í tengslum við mögulegan vindlund á svæðinu. Í niðurstöðunum sagði m.a. varðandi fuglalíf: "Þrjár válistategundir eru taldar verpa innan eða í næsta nágrenni rannsóknarsvæðisins, grágæs, fálki og hrafn. Engin þeirra er talin verða fyrir teljanlegum skakkaföllum vegna fyrirhugaðra vindmylla."