Rannsóknir á nýju bóluefni gegn HIV benda til þess að hægt verði að bólusetja gegn smitum fyrr en síðar. Reynt hefur verið að framleiða slíkt bóluefni í meira en þrjá áratugi en vísindafólki lítið orðið ágengt - fyrr en nú.
Þó er aðeins um bráðabirgðaniðurstöður að ræða en þær þykja engu að síður gefa mikla von um bóluefni gegn HIV, sem veldur alnæmi ef ekkert er að gert. Bóluefnið er þróað af International AIDS Vaccine Initative og Scripps-rannsóknarstofunni í Kaliforníu í Bandaríkjunum.

Nú standa yfir fyrstu fasa tilraunir með bóluefnið og í 97 prósent tilfella tókst þeim sem það fengu að framleiða fágætar ónæmisfrumur sem þarf til að búa til mótefni gegn HIV. Dr. Julie McElrath, ein þeirra sem fer fyrir þróun bóluefnisins, segir að um „tímamótarannsókn á sviði HIV bóluefna“ sé að ræða.
Enn þarf að gera frekari rannsóknir á bóluefninu með fleiri þátttakendum. Þó eru sérfræðingar vongóðir um að þessu bóluefni takist að hindra HIV smit.

„Þetta eru algjörar bráðabirgðarannsóknir. Engu að síður eru þær spennandi,“ segir Dr. William Schaffner, prófessor í smitsjúkdómum við Vanderbilt háskólann í Nashville í Kansas í samtali við ABC. Hann tengist rannsókninni ekki.
„Þetta er mjög frumleg aðferð til bóluefnaþróunar sem ekki hefur verið beitt áður,“ segir hann og lýsir aðferðinni sem beitt er sem nokkurs konar hápunkti í vísindum á 21. öldinni.
Tugir milljóna eru með HIV
Talið er að um 38 milljónir einstaklinga um heim allan séu með HIV og er veiran meðal þeirra erfiðustu fyrir bóluefni að stöðva. Það má að stórum hluta rekja til þess hve fljótt hún stökkbreytist og tekst því að komast fram hjá ónæmiskerfi líkamans.
HIV og alnæmi sem því fylgir uppgötvaðist fyrst snemma á níunda áratugnum og stóðu vonir vísindafólks til að fljótt væri hægt að útbúa bóluefni gegn því líkt og öðrum smitsjúkdómum á borð við mislinga og lifrarbólgu B. Fljótlega kom þó í ljós að verkefnið var flóknara en þróun bóluefna gegn þeim sjúkdómum.