Miklar umferðartafir eru nú á Kjalarnesinu vegna malbikunarframkvæmda. Framkvæmdir verða einnig á veginum á morgun og má búast við miklum töfum þá líka. Ökumenn og farþegar sitja nú fastir í löngum bílaröðum.

Í tilkynningu frá Vegagerðinni segir að umferð á svæðinu sé nú handstýrt. Liðið geta allt að tuttugu mínútur á milli þess sem skipt er um stefnu á veginum en aðeins ein akrein hans er nú í notkun á meðan verið er að malbika hina.

Hin akreinin verður svo malbikuð á morgun og því má búast við svipuðum töfum þá.

Vegfarendum er bent á hjáleið um Mosfellsheiði, Kjósaskarð og Hvalfjörð.