Miklar tafir hafa orðið á af­hendingum bólu­efna­skammta fram­leið­endanna þriggja sem hafa fengið markaðs­leyfi í Evrópu. Þetta á ekki að­eins við um sendingar til Evrópu­sam­bandsins; um miðjan mánuð var greint frá því að af­hendingum Pfizer til Breta seinkaði tals­vert og í gær greindi sviss­neski miðillinn NZZ am Sonntag frá því að í Sviss yrði að­eins hægt að bólu­setja helming þess fjölda fólks í næsta mánuði sem lagt hafði verið upp með.

Sviss er ekki í Evrópu­sam­bandinu en ó­líkt Ís­landi og Noregi á­kvað ríkið að vera ekki sam­hliða sam­bandinu í gerð samninga um kaup á bólu­efni við lyfja­fyrir­tæki. Sviss hefur gert samninga við Pfizer, Moderna og AstraZene­ca og út frá þeim höfðu yfir­völd þar í landi sagt að hægt yrði að bólu­setja 45 þúsund manns dag­lega og klára bólu­setningar á 1,3 milljónum manna í febrúar.

Vegna tafa á af­hendingum frá öllum fram­leið­endum er hins vegar ljóst að þetta mark­mið mun ekki nást. Í um­fjöllun NZZ am Sonntag segir að stjórn­völd hafi ný­lega breytt þessum á­ætlunum sínum, þó þau hafi enn ekki til­kynnt það, og sjái að­eins fram á að hægt verði að bólu­setja 650 þúsund manns í febrúar – helmingi færri en fyrri á­ætlun gerði ráð fyrir.

Ætla að bólusetja alla fyrir mitt ár

Eins og er hafa um það bil 260 þúsund manns hafa fengið fyrsta skammt bólu­efnis í Sviss eða um þrjú prósent þjóðarinnar. Hlut­fall þeirra sem hafa lokið bólu­setningu eða fengið fyrsta skammt hér á landi er svipað.

Alain Ber­set situr í ríkisstjórn Sviss og sér um heilbrigðis- og innanríkismál.
Fréttablaðið/Getty

Heil­brigðis­mála­ráð­herra Sviss, Alain Ber­set, segist ekki hafa miklar á­hyggjur af töfinni: „Vanda­málið sem við stöndum frammi fyrir er það að ein­hverjar sendingarnar berast seinna en gert var ráð fyrir. Þetta er pirrandi en við verðum bara að lifa með því og laga okkur að breyttri stöðu.“

Upp­runa­leg á­ætlun sviss­neskra stjórn­valda gerir ráð fyrir því að allir í landinu verði orðnir bólu­settir fyrir lok júní­mánaðar. Til þess þarf ríkið um 16 milljónir bólu­efna­skammta.