Fár­viðrið sem gekk yfir Suður­landið í nótt og í morgun olli miklum skemmdum á hús­næði fólks. Frétta­blaðið náði tali af gisti­húss­eig­anda og sauð­fjár­bónda á Rang­ár­völlum en hlöður þeirra beggja fóru afar illa í veðrinu.


„Þetta var alveg hræði­legt. Mér hefur aldrei liðið svona hjálpar­vana,“ sagði Í­rena Sif Kjartans­dóttir í sam­tali við Frétta­blaðið. Hún rekur gisti­heimilið Hótel Selið við Keldur á Rang­ár­völlum á­samt kærasta sínum.

Írena og kærasti hennar reyna nú að hreinsa til í hlöðunni.

„Ég vakna í nótt og líður eins og húsið okkar sé að springa. Svo kíki ég út til að at­huga hvort heiti potturinn, sem við erum með á gisti­heimilinu, sé nokkuð fokinn upp þegar ég sé að hurðin á hlöðunni stendur opin,“ segir hún.


„Ég hleyp þá af stað til að reyna að loka henni og þá var náttúru­lega dót að fjúka úr hlöðunni að mér og ég fýk sjálf og festist upp við tré. Með ein­hverjum hætti næ ég svo að koma mér að hlöðunni og þegar ég er að reyna að loka hurðinni sé ég að fram­hliðin á henni er að gefa sig og báru­járns­plötur farnar að losna. Þá sleppi ég auðvitað hurðinni og forða mér beinustu leið aftur inn,“ heldur hún á­fram.


Hún segir þrýstinginn inni í hlöðunni hafa verið svaka­legan og að hún hafi verið full­viss um að hún myndi springa. Hún hafi þó haldið, allt nema fram­hliðin sem fór nánast öll af í veðrinu.

Írena forðaði sér strax úr hlöðunni þegar hún sá að framhliðin var að fara að gefa sig.

Fann rollurnar undir brakinu


Sama sagan var uppi á næsta bæ hjá ná­granna Í­renar, Magnúsi Ingvars­syni. Hann býr á Hellu en er með fjár­hús á Rang­ár­völlum þar sem hann heldur um 30 rollur. Hlaða hans hélt þó ekki jafn vel og hjá Í­renu – hún hrein­lega sprakk að sögn Magnúsar.


„Fjár­hús­hlaðan bara splundraðist í nótt, er alveg farin. Sem betur fer voru nú bara tvær kindur í því húsi og þær sluppu alveg. Ég fann þær bara undir brakinu óslasaðar,“ segir Magnús. „Svo fór gaflinn líka af sem fór inn í hlöðuna úr fjár­húsinu þannig að núna er gal­opið þangað inn þar sem allar kindurnar eru.“

Sjálfur á Magnús ekki húsin en fær að nota þau undir rollurnar. „Eig­andinn býr í Reykja­vík og við erum í sam­ráði núna um hvað við gerum í þessu, hvort við setjum aftur gafl í húsið eða hvað,“ heldur Magnús á­fram. „En ég verð alla­vega að fara eitt­hvað með rollurnar í bili.“


Hann segir veðrið hafa verið rosa­legt í nótt og í morgun og að allt sé úti um allt á svæðinu. „Það færðust hérna stór­baggar og allt í nótt og það þarf nú að ganga tölu­vert á til að svona stór­baggar fari á ferð,“ út­skýrir hann. „Það er sumar­bú­staða­byggð hér rétt hjá og þar var byggt lítið 15 fer­metra hús í sumar. Þegar ég kom á staðinn í dag hafði það fokið í heilu lagi ein­hverja þúsund metra eða svo í burtu frá þeim stað sem það var á.“


Hann segir veðrið vera að detta niður á svæðinu og hann geti farið að ganga frá ein­hverju. Í­rena og kærasti hennar, sem kemur frá Kólumbíu og segist aldrei hafa upp­lifað neitt þessu líkt, gera slíkt hið sama og vinna nú hörðum höndum að því að hreinsa til í hlöðunni sem er í rúst og full af snjó.