Veðurstofan spáir vaxandi suðaustanátt og snjókomu eða slyddu í fyrstu á Suður- og Vesturlandi, en síðar rigningu. Það verða víða suðaustan 10-18 m/s í dag og 13-20 m/s norðvestanlands um kvöldið. Það verður talsverð rigning, en úrkomulítið norðaustantil á landinu. Veður fer hlýnandi, hiti verður á bilinu 4 til 8 stig síðdegis.

Í hugleiðingum veðurfræðings er bent á að það megi búast við mikilli leysingu um allt land og að í þéttbýli reyni mikið á frárennsliskerfi. Því sé gott að greiða leið vatns í niðurföll til að fyrirbyggja vatnstjón.

Enn fremur er bent á að á Norðurlandi sem og sums staðar á Vestförðum og Austfjörðum sé meiri snjór en syðra og þar geti myndast aðstæður til aukinnar snjóflóðahættu. Eins muni ár og lækir ryðja sig víðast hvar og við þannig aðstæður geti myndast klakastíflur.

Á morgun spáir Veðurstofan suðvestan 8-15 m/s en 13-20 m/s norðan- og norðvestanlands. Það verða skúrir framan af degi en síðan dálítil él. Á austanverðu landinu verður bjartviðri. Það kólnar smám saman og hiti verður um og rétt yfir frostmarki um kvöldið.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á þriðjudag: Suðvestan 10-18 og dálítil él, en léttir til A-lands. Hiti 1 til 8 stig, hlýjast austast, en í kringum frostmark um kvöldið. 

Á miðvikudag: Allhvöss sunnanátt og rigning eða slydda, en úrkomulítið NA-til á landinu. Hiti 1 til 6 stig. Vestlægari með éljum og kólnar seinnipartinn, fyrst V-lands. 

Á fimmtudag: Suðvestanátt. Víða snjókoma eða slydda, þurrt N-lands framan af degi en él um landið V-vert. Hiti um eða undir frostmarki. 

Á föstudag: Vestlæg átt og él, en þurrt A-lands. Frost um mest allt land. 

Á laugardag: Vestlæg átt, stöku él og kalt í veðri, en bætir í ofankomu um landið sunnan- og vestanvert þeegar líður á daginn. 

Á sunnudag: Útlit fyrir áframhaldandi suðvestlæg átt með éljum S- og V-til. Hiti um og undir frostmarki.

Færð á þjóðvegum

Suðvesturland: Það eru hálkublettir á Hellisheiði og í Þrengslum en öllu meiri hálka á Mosfellsheiðinni. Þæfingsfærð er á Kjósarskarði. Verið er að hreinsa Suðurstrandarveg og opna Krýsuvíkurveg.

Vesturland: Víða er snjóþekja en verið er að kanna færð og hreinsa vegi. Strekkingsvindur er á Snæfellsnesi. 

Vestfirðir: Éljagangur og víða snjóþekja eða hálka, raunar þæfingsfærð á Hálfdáni og Mikladal eins og er. Þungfært á Örlygshafnarvegi og eins frá Drangsnesi út í Bjarnarfjörð en þæfingur norður í Árneshrepp. 

Norðurland: Það er hálka á Hrútafjarðarhálsi, Þverárfjalli og Öxnadalsheiði en annars er ekki veruleg hálka á aðalleiðum. Hins vegar er víða snjóþekja á útvegum.

Norðausturland: Víða nokkur hálka inn til landsins en meira autt með ströndinni.

Austurland: Það eru hálkublettir á Fjarðarheiði og Fagradal - en víða er enn verið að kanna færðina.

Suðausturland: Éljagangur eða snjókoma og sumstaðar er því hálka eða snjóþekja á vegi. Lítið hefur þó fest enn sem komið er á milli Hafnar og Öræfa.

Suðurland: Snjóþekja í kringum Vík en svo autt vestur undir Hvolsvöll. Annars er víða nokkur hálka eða snjóþekja á vegum.