Forstjórar hjá ríkinu sem voru áður með laun sem voru ákveðin af kjararáði hafa fengið næstum því fjórðungs launahækkun að meðaltali á tæplega tveimur árum. Bankastjóri Landsbankans er með næstum tvöfalt hærri laun en áður. Þetta kemur fram í frétt á vef RÚV.

Þessar upplýsingar komu fram í svari við fyrirspurn Þorsteins Víglundssonar, varaformanns Viðreisnar, til fjármálaráðherra frá því í vor, en svarið var birt á vef Alþingis í gær, föstudag.

Forstjórar félaga sem eru í eigu ríkisins hafa að meðaltali fengið um 23,5 prósent launahækkun síðustu tæplega tvö ár, eða frá því í júní 2017 þangað til í apríl 2019. Kjararáð ákvað laun þeirra áður en það var lagt niður um mitt síðasta ár. Þá fengu stjórnir fyrirtækjanna sem forstjórarnir stýra vald til að skammta þeim laun.

Laun bankastjóra Landsbankans hafa hækkað mest, eða um 82 prósent. Forstjóri Landsvirkjunar hefur fengið 63 prósent hækkun og forstjóri Landsvirkjunar hefur fengið 67 prósent hækkun.

Á sama tíma hafa laun forstjóra Matís staðið í stað, forstjóri Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar er með sjö prósent lægri laun en áður og bankastjóri Íslandsbanka hefur lækkað í launum um heil 20 prósent. Samt sem áður er bankastjóri Íslandsbanka ennþá með hærri laun heldur en bankastjóri Landsbankans.

Þorsteinn Víglundsson segist hissa á því hve mikill munur er á þessum ákvörðunum. Hann segir það augljóst að það sé engin stefna varðandi kjör stjórnenda fyrirtækja í eigu ríkisins og segir það sérkennilegt að eigandinn hafi ekki skoðun á því hvað æðstu stjórnendur fyrirtækja í hans eigu fái í laun.

Þorsteinn segir stjórnvöld ekki geta bara vísað á stjórnirnar, því þau beri líka ábyrgð. Hann segir að þessar launaákvarðanir vekji líka upp spurningar um hvernig laun verða ákveðin í framtíðinni. Hann segir það ekki síst áhugavert eftir þau hörðu viðbrögð sem launahækkanir hjá hinu opinbera hafa vakið.