Auður Alfa Ólafsdóttir, verkefnisstjóri verðlagseftirlits ASÍ, segir verðhækkanir á matvöru að undanförnu þær mestu á stuttum tíma allt frá hruni. Ljóst sé að slíkar hækkanir éti upp að hluta til þær kjarabætur sem orðið hafa vegna launahækkana undanfarið og komi afar illa við neytendur.

„Matvöruverð er í raun búið að hækka það mikið undanfarið að matvöruverslanir ættu ekki að þurfa að hækka meira, þá sérstaklega vegna þess að við erum að sjá mjög góðar afkomutölur,“ segir Auður.

Að sögn Auðar hefur veltan á Covid tímabilinu í raun aukist, sem hafi gefið verslunareigendum meira svigrúm til að halda aftur af þessum verðhækkunum. „Það virðist þó ekki hafa gerst, heldur hafa þeir nýtt sér tækifærið frekar til að hækka verð. Manni finnst að samfélagslega ábyrgðin mætti vera meiri,“ segir hún.

Auður telur að þetta eigi þó ekki alfarið að velta á samvisku verslunareigenda. Markaðsaðstæður ættu að vera þannig að það sé meiri samkeppni á markaði. „Stjórnvöld þurfa að stíga þarna inn í og draga úr þessum markaðsbresti sem einkennir íslenskan matvörumarkað,“ segir Auður.

Þegar Fréttablaðið leitaði til Breka Karlssonar, formanns Neytendasamtakanna, vegna málsins sagðist hann taka undir orð Auðar. „Okkar skoðun er sú að fyrirtæki þurfi að leita allra annarra leiða en að hækka vöruverð. Sérstaklega þar sem þetta er að öllum líkindum bara tímabundið ástand. Ef við förum að hækka verð umfram það sem við erum að sjá, munum við sjá gamalkunnugt stef höfrungahlaups launa og verðhækkana, segir Breki.

Að sögn Breka er það mikilvægt að leysa innlenda matvælaframleiðendur úr viðjum gamals hugsunarháttar. „Þessir tollamúrar sem innlend matvælaframleiðsla býr við festir íslenska matvælaframleiðendur inni í einhverjum fílabeinsturni, þar sem þeir þurfa ekki að horfa jafn mikið til neytenda eins og ef þeir væru á frjálsum markaði.“

Breki segir framhaldið þó enn óljóst, sér í lagi með tilliti til þess að samningar séu lausir í haust. Þó voni hann að atvinnu- og verslunarrekendur skilji að þetta sé í raun samspil neytenda og verslunar. „Til lengri tíma er það einfaldlega öllum í hag að verðlag sé stillt í hóf.“

Breki Karlsson formaður Neytendasamtakanna