Stólaskipti fóru fram í gær í mikið breyttu ráðuneyti Katrínar Jakobsdóttur, sem tilkynnt var á sunnudag. Ráðherrum var fjölgað um einn og fjölmargir fjárlagaliðir færðir á milli ráðuneyta. Til að mynda var verkefnum menntamálaráðuneytisins sundrað í þrjú ráðuneyti.

„Þetta eru óvenjulega miklar breytingar við stjórnarmyndun,“ segir Ólafur Þ. Harðarson, prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands. Segist hann ekki efast um að hugsun liggi þarna að baki en betri útlistanir vanti á hvers vegna þetta var gert. Séu þetta mestu breytingar síðan 2009 þegar ráðherrum var fækkað eftir hrun.

Hvað einstaka nýja ráðherra varðar kom mörgum það á óvart að Jón Gunnarsson tæki við taumunum í innanríkisráðuneytinu, til átján mánaða. En arftaki hans, Guðrún Hafsteinsdóttir, hefur þegar lýst vonbrigðum yfir að taka ekki við strax.

„Nú fer að síga á seinni hlutann á ferli Jóns og líklegt er að verið sé að verðlauna hann fyrir góðan stuðning,“ segir Ólafur. Hvað varðar skiptinguna veki skipun Willums Þórs sem heilbrigðisráðherra hvað mesta athygli. Sjálfstæðismenn höfðu sóst eftir því og Guðlaugur Þór var sterklega orðaður við ráðuneytið.

„Þetta lítur út eins og málamiðlun milli Vinstri grænna og Sjálfstæðisflokksins og sæmileg lausn. Willum er ekki mikill hugsjónamaður, frekar pragmatískur og hófsamur. Það getur verið að hann auki einkarekstur að einhverju leyti en Framsóknarflokkurinn hefur lagt áherslu á blandaðan rekstur heilbrigðiskerfisins,“ segir Ólafur.

Ólafur ásamt Boga Ágústssyni í kosningasjónvarpinu.
Mynd/Facebook

Þó að miklar tilfærslur hafi orðið á stjórnsýslunni segir Ólafur að valdahlutföllin hafi lítið breyst. Framsókn fái auka ráðherra og stækkaðan stól undir formanninn og Vinstri græn missi forseta Alþingis til Sjálfstæðisflokksins, breytingar sem eru nokkuð í takt við niðurstöður kosninganna.

Það sé ekki áfall fyrir Vinstri græn að missa bæði heilbrigðis- og umhverfisráðuneytið. Einkum þar sem flokkurinn hafi fengið hið fjárfreka félagsmálaráðuneyti. Samkvæmt stjórnarsáttmálanum sé einmitt stefnan að gera skurk í málefnum aldraðra og öryrkja og endurskoða almannatryggingakerfið, verkefni sem standa flokknum nærri. Þá bíði stórt verkefni, að breyta vinnumarkaðskerfinu og færa það nær því skandinavíska.

Ýmis andvana fædd mál fyrri stjórnar hafa verið lögð á hilluna í nýjum sáttmála, svo sem stofnun þjóðarsjóðs, afglæpavæðing neysluskammta og Miðhálendisþjóðgarður. Mikil áhersla er á loftslagsmálin og velferðarmál en lítið um umdeild mál á dagskrá. Enn þá stendur þó til að draga úr eignarhlut ríkisins í bönkunum.

Ólafur segist ekki eiga von á öðru en að stjórnin sitji út kjörtímabilið en reynslan sé sú að annað kjörtímabil sé erfiðara en það fyrsta. Liðið kjörtímabil hafi markast af faraldrinum. „Þó að Covid hafi reynt á fólk þá er faraldurinn ekki hægri-vinstri mál og hann olli því að ýmis deilumál komu ekki almennilega upp á yfirborðið,“ segir hann.