Jóhannes Þór Skúla­son, fram­kvæmda­stjóri Sam­taka ferða­þjónustunnar, segir svo virðast vera sem að önnur túlkun sé um það hjá stéttar­fé­lögunum tveimur VR og Eflingu, og ferða­þjónustu­fyrir­tækjanna um túlkun á boðaðrar vinnu­stöðvunar á föstu­daginn. Fram­kvæmda­stjóri Eflingar segir það vera túlkun stéttar­fé­lagsins að verk­fallið nái til allra hóp­bif­reiða­stjóra á fé­laga­svæði Eflingar. 

Verk­fall hótel­starfs­mann og hóp­bif­reiða­stjóra hefst á föstu­dags­morgun og stendur í einn dag. Frekari verk­falls­að­gerðir hafa verið boðaðar á næstu vikum.

Óttast að harkalega verði tekið á verkfallsvörslu

„Það er náttúrulega bara mjög flókið verkefni fram undan og fyrirtækin eru bara hvert fyrir sig að undirbúa sig eins og þau geta. Við höfum miklar áhyggjur af því að það verði of harkalega tekið á verkfallsvörslu hjá stéttarfélögunum,“ segir Jóhannes í samtali við Fréttablaðið. Segir hann samtök ferðaþjónustunnar telja sem svo að eðlilegt sé að þeir starfsmenn, sem ekki eru í VR og Eflingu, eigi rétt á að sinna vinnu sinni á föstudaginn óáreitt.

„Það hafa borist meldingar um það að sé önnur túlkun um það atriði hjá stéttarfélögunum. Við erum svona að vona að þetta leysist allt og fari allt rétt fram. Fyrirtækin hafa undirbúið sig undir þennan dag og eru því miður búin að stoppa bókanir á næstu verkfallsdögum sem eru bókaðir,“ segir Jóhannes og bendir á að bæri stórar og litlar afbókanir hafi borist vegna verkfallsins.

„Við sjáum það núna í þessari viku að mjög stórar ferðaskrifstofur úti í heimi séu farnar að vara sína kúnna að svona sé ástandið á Íslandi.“

Ástandið verra nú en fyrir nokkrum vikum

Segir hann ástandið nú, í aðdraganda komandi verkfalls, vera mun alvarlegra en í aðdraganda verkfallsins 8. mars síðastliðinn. Segir hann að verkföll, sem standi yfir í fleiri daga en einn gætu haft mjög alvarleg áhrif, en slík verkföll eru í kortunum og gætu þau jafnvel haft þau áhrif að fyrirtæki þyrftu að loka dyrum sínum meðan verkföllin standa yfir.

„Það þýðir að það verða mjög mikið af ferðamönnum sem verða fyrir beinum áhrifum af því,“ segir Jóhannes og ítrekar að staðan sé flókin. Aðspurður segir hann öll fyrirtæki, sem verkföllin snúa að, hafi unnið að viðbragðsáætlunum um það hvernig þau komast í gegnum þessa daga.

„Um leið og þetta eru orðnir tveir eða þrír dagar, þá er þetta orðinn gríðarlega mikill skaði. Tjónið er svo sem alveg nóg bara á einum degi en ég reiknaði út að þessi fyrirtæki ef allt fer á versta veg er þetta allt upp undir 250 milljónir á dag, sem er bara beint fjárhagslegt tap.“

„Ef þú ert hópbifreiðastjóri í Reykjavík þá átt þú að vera í Eflingu.“

Viðar Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Eflingar, segir í samtali við Fréttablaðið að túlkun stéttarfélagsins sé sem svo að verkfallsboðunin nái yfir alla hópbifreiðarstjóra á félagssvæði Eflingar, þar sem Efling sé eina stéttarfélagið sem er með gildan kjarasamning fyrir þessa starfsstétt á því svæði.

„Það er til í dæminu að það séu einstaklingar sem séu ranglega skráðir í félag, hópbifreiðastjóri sem er kannski skráður í VR eða stéttarfélag utan félagssvæðisins, og við teljum ekki að fólk sé undanskilið verkföllum af þessum sökum. Við lítum svo að ðboðunin nái til þeirra sem eiga að vera í Eflingu og þá bjóðum við bara þeim einstaklingum að leiðrétta sína félagsaðild og gerum það bara hratt og örugglega,“ segir Viðar.

„Allir sem að starfa eftir samningnum okkar sem tekur til þessa félagssvæðis, í tilfelli rútubílstjóri, er Efling eina stéttarfélagið á höfuðborgarsvæðinu, fyrir utan að vísu Hafnarfjörð, sem er með gildan kjarasamning fyrir störf hópbifreiðastjóra þar af leiðir að ef að þú ert hópbifreiðastjóri í Reykjavík þá átt þú að vera í Eflingu.“