Mannréttinda- og ofbeldisvarnaráð Reykjavíkur hefur miklar áhyggjur af stöðu hinsegin barna og ungmenna í skóla- og frístundastarfi Reykjavíkurborgar, með hliðsjón af nýlegum frásögnum af aðkasti sem umræddur hópur hefur orðið fyrir.

Á fundi ráðsins voru sagðar dæmisögur af þeim veruleika sem hinsegin ungmenni lifa við.

„Samkynhneigður drengur fékk ítrekað skilaboð um að hann væri ógeðslegur og ætti að drepa sig. Móðir hans hafði samband við foreldra gerenda sem annað hvort sögðu að þau réðu ekkert við börnin sín eða könnuðust ekki við að börn þeirra gætu hegðað sér svona,“ hljómaði ein sagan.

Allar sögurnar sem kynntar voru á fundi mannréttindaráðsins snerust um hrikalegar aðstæðar sem hinsegin börn í Reykjavík búa við og hatrið sem þau verða fyrir innan veggja skóla og utan hans.

Yfir eitt hundrað ungmenni mæta á hverja opnun í 13-16 ára starfi Hinsegin félagsmiðstöðvar S78 og Tjarnarinnar samkvæmt gögnum sem lögð voru fyrir ráðið í vikunni.

„Ráðið telur mikilvægt að gripið verði til tafarlausra aðgerða til þess að verja hinsegin börn og ungmenni og tryggja réttindi þeirra og velferð í hvívetna,“ segir í bókun ráðsins.