„Þetta er vissulega róttæk löggjöf en við megum ekki gleyma því að löggjöfin sem var sett á árið 2000 þótti líka mjög róttæk þá en í dag þykir okkur hún mjög eðlileg,“ segir Ásdís Aðalbjörg Arnalds, doktor í félagsráðgjöf, um breytingar sem fyrirhugaðar eru á lögum um fæðingarorlof. Til stendur að lengja fæðingarorlof úr níu mánuðum í tólf um áramót, lagt er til að orlofinu verði skipt þannig að hvort foreldri um sig fái sex mánuði en að heimilt verði að framselja einn mánuð til hvors annars.
Ásdís varði fyrir helgi doktorsvörn sína í félagsráðgjöf en í rannsóknum sínum fjallar hún um áhrif íslensku fæðingarorlofslöggjafarinnar á atvinnuþátttöku foreldra og umönnun barna. Hún segir að með þeim breytingum sem tóku gildi árið 2000, þar sem fæðingarorlof var lengt í níu mánuði og óframseljanlegur réttur beggja foreldra varð þrír mánuðir, hafi þátttaka feðra í umönnun barna aukist verulega.
„Við sjáum það að feður hafa verið að nýta orlofsrétt sinn og á sama tíma hefur þátttaka þeirra í umönnun barna þeirra aukist mikið, allt að þremur árum eftir fæðingu,“ segir Ásdís. „Það er mjög mikilvægt að hafa orlofið óframseljanlegt vegna þess að feður hafa akkúrat verið að nýta þessa þrjá mánuði sem ekki er hægt að færa yfir á móðurina,“ bætir hún við.

Hún segir að þegar löggjöfin tók gildi fyrir tuttugu árum síðan hafi það skyndilega þótt eðlilegt að feður önnuðust börnin sín í meira mæli en áður. „Það fóru að sjást feður með barnavagna um allan bæ og samfélagslegu áhrifin urðu greinileg,“ segir Ásdís.
Þá segir hún að áhrifin sem breytingarnar á fæðingarorlofslöggjöfinni hafi haft á atvinnuþátttöku foreldra séu einnig greinileg. „Við sjáum að eftir að lögin tóku gildi eru feður að vinna minna, en mæður aftur á móti meira,“ segir hún.
„Við sjáum það líka að mæður eru að hverfa aftur til sams konar starfshlutfalls eftir fæðingu og þær voru í fyrir fæðingu,“ segir Ásdís og bætir við að áður en breytingarnar tóku gildi hafi mæður í mörgum tilfellum horfið af vinnumarkaði eftir fæðingu barns.
Ásdís segir þær breytingar sem fyrirhugaðar eru um áramótin jákvæðar. „Við teljum okkur búa í jafnréttisþjóðfélagi og að við séum orðin það jafnréttissinnuð að það þyki sjálfsagt mál að feður taki fæðingarorlof en við sjáum það í löndunum í kringum okkur að ef við myndum gefa þetta frjálst þá myndu feður taka minna orlof,“ útskýrir hún og tekur dæmi frá Noregi.
„Þar var sjálfstæður réttur feðra fjórtán vikur og þeir nýttu sér þann rétt, svo var hann minnkaður í tíu vikur og þá drógu þeir úr sinni orlofstöku. Það varð bakslag við það að minnka sjálfstæðan rétt,“ segir Ásdís.
Hún segir einnig mikilvægt að senda þau skilaboð út í atvinnulífið að eðlilegt sé að bæði mæður og feður hverfi af vinnumarkaði í sex mánuði til að annast barnið sitt, þá sé mikilvægt að fæðingarorlofsgreiðslur séu tekjutengdar. „Svo má ekki gleyma því að með þessum breytingum er verið að lengja fæðingarorlofið, sem er jákvætt.“