„Án þess að hafa tekið endanlega afstöðu í þessu máli þá hef ég ákveðnar efasemdir um þetta mál,“ sagði Þorsteinn Víglundsson þingmaður Viðreisnar þegar Fréttablaðið spurðist fyrir um afstöðu hans til úrskurðar forsætisnefndar sem birtur var í dag í máli Þórhildar Sunnu Ævarsdóttur, þingmanns Pírata. „Eins hafði ég í grundvallaratriðum efasemdir um að það væri við hæfi að við sætum að því að dæma ummæli þingmanna með þessum hætti.“

Tekur ekki þátt í meðferð málanna

Þorsteinn er annar áheyrnarfulltrúa forsætisnefndar ásamt Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins. Þau hafa rétt til að taka þátt í umræðum nefndarinnar en taka hins vegar ekki þátt í að gefa nefndarálit. Þorsteinn segist sjálfur hafa lýst því yfir að hann myndi ekki taka þátt í meðferð mála tengdum siðareglum en hann sat ekki fundinn þar sem forsætisnefnd féllst á niðurstöður siðanefndar þess efnis að Þórhildur Sunna hafi brotið þær reglur.

„Mér finnst einfaldlega skorta betri grundvöll fyrir siðareglurnar og hvernig við ættum að vinna svona mál fram á veginn. Þannig að ég var ekki aðili að endanlegri ákvarðanatöku,“ segir Þorsteinn. „Ég hafði líka lýst yfir efasemdum um að jafn ríkur réttur eins og málfrelsi þingmanna, sér í lagi í orðræðu hver gagnvart öðrum, ætti að vera skertur með þessum hætti.“

Forsætisnefnd afgreiddi málið síðasta föstudag.
Stefán

Í forsætisnefnd sitja fulltrúar hinna ýmsu flokka en Þorsteinn telur að nefnd skipuð þingmönnum sé ekki réttur vettvangur fyrir mál sem snúa að brotum annarra þingmanna. „Það er svo hætt við því að það geti blandast pólitískar línur inn í það og þess vegna sagði ég mig frá umfjöllun forsætisnefndar um þessi mál þar til þessar reglur hafa verið endurskoðaðar,“ heldur Þorsteinn áfram.

Dómstólar betri vettvangur

Að hans mati væru þá mun eðlilegra að mál af þessu tagi gengju fyrst til dómstóla svo að ljóst hvort að ummælin teldust ærumeiðandi eða ekki. Hann segir mikilvægt að frelsi þingmanna til gagnrýni í pólitískri umræðu sé verndað. „Við þurfum þá kannski líka að sæta því að sama skapi að sitja undir þungri umræðu í ljósi stöðu okkar en eigum þá alltaf þetta úrræði að geta leitað til dómstóla ef við teljum ummælin ærumeiðandi.“

Reglurnar segir Þorsteinn þá þurfa að endurskoða. Skerpa þurfi á ýmsum atriðum og ákveða hvernig málum sem þessum skuli háttað til framtíðar. Þannig sé margt í reglunum ekki nægilega skýrt. „Til dæmis leikur verulegur vafi um margt og þriggja manna siðanefndinni ekki treyst til að túlka gildissvið siðareglnanna, hvenær þær eigi við og hvenær ekki, þannig að ég tel að það þurfi að fara í verulega endurskoðun á þessu.“