Hæsti­réttur Banda­ríkjanna úr­skurðaði fylkjum undir stjórn Repúblikana í vil í máli er snýst um getu al­ríkis­stjórnarinnar til að setja hömlur á kol­efnis­út­blástur frá iðnaði. Úr­skurðurinn er talinn geta skipt sköpum fyrir vald ríkis­stjórnarinnar í Banda­ríkjunum og ýmsir hafa á­hyggjur af því að um sé að ræða mikið bak­slag í bar­áttunni gegn hnatt­rænni hlýnun.

Sex af níu hæsta­réttar­dómurum Banda­ríkjanna greiddu at­kvæði í vil máli Vestur-Virginíu­fylkis gegn al­ríkis­stjórn Banda­ríkjanna sem krafðist þess að Um­hverfis­stofnun Banda­ríkjanna tak­marki reglu­verk sitt er varðar þær hömlur sem settar eru á kol­efnis­út­blástur frá orku­iðnaðinum.

Talið er að um sé að ræða mikil­vægasta dóms­mál er varðar lofts­lags­breytingar sem komið hefur inn á borð hæsta­réttar í rúman ára­tug.

Byggist á reglu­gerð sem tók aldrei gildi

Málið fékk stuðning ýmissa annarra fylkja í Banda­ríkjunum þar sem í­halds­stjórnir Repúblikana eru við lýði á borð við Texas og Ken­tucky. Það þykir ó­venju­legt fyrir þær sakir að það byggist á hinu svo­kallaða C­lean Power Plan, sem var fyrir­huguð reglu­gerð studd af Barack Obama Banda­ríkja­for­seta sem snerist um að tak­marka út­blástur frá kola­orku­verum.

Reglu­gerðin tók hins vegar aldrei gildi og ríkis­stjórn Joe Bidens reyndi að fá málinu vísað frá á grund­velli þess að hætt var við á­ætlunina sem gekk ekki sem skyldi.

Sam­kvæmt um­fjöllun The Guar­dian byggist dóms­málið ekki að­eins á reglu­gerð sem er ekki til og tók aldrei gildi og hefði sett kröfur á orku­iðnaðinn sem hann hefði hvort eð er þurft að fylgja. Þá byggðist það auk þess á tveimur laga­bálkum sem er hvergi minnst á í banda­rísku stjórnar­skránni og flestir lög­fræðingar telja ekki eiga grund­völl í lögum neinna ríkja.

Engu að síður úr­skurðaði hæsti­réttur, sem er að meiri­hluta skipaður í­halds­sömum dómurum af hægri væng stjórn­málanna, Vestur-Virginíu í vil, fylki sem stundar stór­felldan kola­iðnað. Rök Vestur-Virginíu voru meðal annars þau að em­bættis­menn hjá Um­hverfis­stofnun Banda­ríkjanna sem ekki voru kjörnir í em­bætti ættu ekki að fá leyfi til að endur­skapa efna­hag landsins með því að setja hömlur á kol­efnislosun, jafn­vel þótt mengun af völdum kol­efnislosunar sé að hafa víð­tæk og skelfi­leg á­hrif á náttúru­leg kerfi jarðar.

Gæti haft víð­tækar af­leiðingar

„Að setja þak á út­blástur kol­tví­sýrings sem myndi þvinga land­læg um­skipti frá notkun kola til fram­leiðslu á raf­orku gæti verið skyn­sam­leg lausn við krísu dagsins í dag. Engu að síður er það ekki sann­færandi að Banda­ríkja­þing hafi veitt Um­hverfis­stofnun leyfi til að inn­leiða slíka reglu­gerð,“ sagði yfir­dómarinn John Roberts í á­liti sínu.

Úr­skurðurinn gæti einnig haft gífur­legar af­leiðingar fyrir mögu­leika banda­rísku al­ríkis­stjórnarinnar til að setja við­mið og reglu­verk á ýmsum öðrum sviðum á borð við hrein­leika vatns og lofts, neyt­enda­vernd, banka­sýslu, öryggi á vinnu­stöðum og lýð­heilsu.

Það gæti breytt því í grund­vallar­at­riðum hvert hlut­verk al­ríkis­stjórnarinnar er og hvað hún hefur leyfi til að gera. Að sögn dómarans Elenu Kagan gæti þetta haft þær af­leiðingar að kjörnir full­trúar fái að taka af­drifa­ríkar á­kvarðanir um hluti sem þeir skilja hugsan­lega ekki.