Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði fylkjum undir stjórn Repúblikana í vil í máli er snýst um getu alríkisstjórnarinnar til að setja hömlur á kolefnisútblástur frá iðnaði. Úrskurðurinn er talinn geta skipt sköpum fyrir vald ríkisstjórnarinnar í Bandaríkjunum og ýmsir hafa áhyggjur af því að um sé að ræða mikið bakslag í baráttunni gegn hnattrænni hlýnun.
Sex af níu hæstaréttardómurum Bandaríkjanna greiddu atkvæði í vil máli Vestur-Virginíufylkis gegn alríkisstjórn Bandaríkjanna sem krafðist þess að Umhverfisstofnun Bandaríkjanna takmarki regluverk sitt er varðar þær hömlur sem settar eru á kolefnisútblástur frá orkuiðnaðinum.
Talið er að um sé að ræða mikilvægasta dómsmál er varðar loftslagsbreytingar sem komið hefur inn á borð hæstaréttar í rúman áratug.
Byggist á reglugerð sem tók aldrei gildi
Málið fékk stuðning ýmissa annarra fylkja í Bandaríkjunum þar sem íhaldsstjórnir Repúblikana eru við lýði á borð við Texas og Kentucky. Það þykir óvenjulegt fyrir þær sakir að það byggist á hinu svokallaða Clean Power Plan, sem var fyrirhuguð reglugerð studd af Barack Obama Bandaríkjaforseta sem snerist um að takmarka útblástur frá kolaorkuverum.
Reglugerðin tók hins vegar aldrei gildi og ríkisstjórn Joe Bidens reyndi að fá málinu vísað frá á grundvelli þess að hætt var við áætlunina sem gekk ekki sem skyldi.
Samkvæmt umfjöllun The Guardian byggist dómsmálið ekki aðeins á reglugerð sem er ekki til og tók aldrei gildi og hefði sett kröfur á orkuiðnaðinn sem hann hefði hvort eð er þurft að fylgja. Þá byggðist það auk þess á tveimur lagabálkum sem er hvergi minnst á í bandarísku stjórnarskránni og flestir lögfræðingar telja ekki eiga grundvöll í lögum neinna ríkja.
Engu að síður úrskurðaði hæstiréttur, sem er að meirihluta skipaður íhaldssömum dómurum af hægri væng stjórnmálanna, Vestur-Virginíu í vil, fylki sem stundar stórfelldan kolaiðnað. Rök Vestur-Virginíu voru meðal annars þau að embættismenn hjá Umhverfisstofnun Bandaríkjanna sem ekki voru kjörnir í embætti ættu ekki að fá leyfi til að endurskapa efnahag landsins með því að setja hömlur á kolefnislosun, jafnvel þótt mengun af völdum kolefnislosunar sé að hafa víðtæk og skelfileg áhrif á náttúruleg kerfi jarðar.
Gæti haft víðtækar afleiðingar
„Að setja þak á útblástur koltvísýrings sem myndi þvinga landlæg umskipti frá notkun kola til framleiðslu á raforku gæti verið skynsamleg lausn við krísu dagsins í dag. Engu að síður er það ekki sannfærandi að Bandaríkjaþing hafi veitt Umhverfisstofnun leyfi til að innleiða slíka reglugerð,“ sagði yfirdómarinn John Roberts í áliti sínu.
Úrskurðurinn gæti einnig haft gífurlegar afleiðingar fyrir möguleika bandarísku alríkisstjórnarinnar til að setja viðmið og regluverk á ýmsum öðrum sviðum á borð við hreinleika vatns og lofts, neytendavernd, bankasýslu, öryggi á vinnustöðum og lýðheilsu.
Það gæti breytt því í grundvallaratriðum hvert hlutverk alríkisstjórnarinnar er og hvað hún hefur leyfi til að gera. Að sögn dómarans Elenu Kagan gæti þetta haft þær afleiðingar að kjörnir fulltrúar fái að taka afdrifaríkar ákvarðanir um hluti sem þeir skilja hugsanlega ekki.