Katrín Jakobs­dóttir, for­maður Vinstri hreyfingarinnar græns fram­boðs (VG) og for­sætis­ráð­herra, flutti á­varp á tólfta lands­fundi VG sem hófst fyrr í dag.

Katrín sagði frá því að hún hafi fé­lagi í þessari hreyfingu í 21 ár eða næstum hálfa ævina.

„Á þessum tíma þá hef ég kynnst mörgu góðu fólki og margt af þessu fólki er hér,“ sagði Katrín.

Hún sagði að stjórn­mál snúist annars vegar um þær hug­myndir og þau gildi sem við viljum að móti sam­fé­lag okkar og hins vegar um fólk. Hún sagði að stjórn­málin snúist um að hafa skýra stefnu fyrir sam­fé­lagið og byggja á henni í öllum sínum verkum en þau snúist líka um að hafa á­huga á fólki, geta unnið með fólki og geta skilið alls konar fólk, sjónar­mið þess og að­stæður og að hana þætti hvort tveggja ein­kenni störf VG.

Stjórnarsamstarfið óvinsælt í byrjun

„Við höfum stundum haft ó­vin­sælar skoðanir og tekið ó­vin­sælar á­kvarðanir þegar okkur hefur þótt þær réttar á­kvarðanir. Nú­verandi stjórnar­sam­starf var til að mynda ó­vin­sælt af mörgum sem á­kváðu fyrir­fram að við myndum engu fá ráðið og engu koma í fram­kvæmd. En annað hefur komið á daginn,“ sagði Katrín og bætti því að kjör­tíma­bilið hafi verið ó­venju­legt og lær­dóms­ríkt

Katrín fór yfir þær breytingar sem hafa verið inn­leiddar á kjör­tíma­bilinu eins og þrepa­skipt tekju­skatts­kerfi, að fæðingar­or­lof hafi verið lengt úr níu mánuðum í tólf mánuði. Hún nefndi nýja vel­sældar­mæli­kvarðar og vel­sældar­á­herslur og að fram­lög til lofts­lags­mála á kjör­tíma­bilinu hafi verið átt­földuð.

„Dýr­mætur réttur hvers og eins til að velja sér kyn hefur verið tryggður með nýjum lögum og sjálfs­á­kvörðunar­réttur kvenna yfir eigin líkama – sem er undir­staða alls kynja­jafn­réttis – var undir­strikaður með nýjum lögum um þungunar­rof – lögum sem konur höfðu barist fyrir í marga ára­tugi,“ sagði Katrín og að enn væri barist um það á al­þjóða­vett­vangi.

Þá fagnaði hún styttingu vinnu­vikunnar og breytingum á vakta­vinnu­fyrir­komu­lagi auk fleiri breytinga.

„Þetta eru okkar mál­efni og þetta er mikil­vægur mál­efna­legur árangur sem við náðum fram af því að við höfum skýra stefnu. Stjórn­mála­flokkar og stjórn­mála­menn geta nefni­lega valið um það hvort þeir fylgja stefnu eða hafa ein­fald­lega skoðanir á öllu sem upp kemur. Hvort þeir eru veg­vísar – eða vind­hanar,“ sagði Katrín.

Landsfundurinn er rafrænn að þessu sinni.
Fréttablaðið/Valli

Hafa tekið erfiðar ákvarðanir

Þá vék hún að heims­far­aldrinum sem hefur sett svip á líf okkar allra undan­farna 14 mánuði. Hún sagði að við­brögð okkar við honum hafa snúist um að vernda líf og heilsu fólksins í landinu og styðja við af­komu al­mennings og at­vinnu­lífs en að í þessum við­brögðum megi ekki gleyma því að sagan af co­vid-19 á Ís­landi er saga af því hvernig það hafi verið teknar erfiðar á­kvarðanir á Ís­landi, bæði hvað varðar sótt­varna­ráð­stafanir hér innan­lands og á landa­mærum –

„En þessar á­kvarðanir hafa verið teknar með hags­muni þjóðarinnar í fyrir­rúmi og það hefur skilað okkur góðum árangri,“ sagði Katrín.

Hún sagði að sam­staða þjóðarinnar og út­hald hafi reynst mikið og mikil­vægt og að þótt að mark­miðin hafi verið skýr hafi far­aldurinn gert öllum ljóst hvað það skiptir miklu að eiga öflugt opin­bert heil­brigðis­kerfi þar sem allir eiga jafnan að­gang.

Katrín þakkaði öllum þeim sem hafa staðið vaktina í far­aldrinum eins og kvenna­stéttir, kennara, vísinda­fólk, strætis­vagna­bíl­stjóra og marga fleiri sem hún sagðist ekki geta talið alla upp.

„Við höfum staðið vaktina,“ sagði Katrín

Hún sagði að fram­undan væru krefjandi og spennandi tímar og að upp­byggingin sem blasir við þurfi að vera græn, sjálf­bær og rétt­lát.

„Við þurfum að skapa störf, tryggja fjöl­breytt at­vinnu- og efna­hags­líf og öflugt vel­ferðar­sam­fé­lag. Við þurfum að standa vörð um þá inn­viði sem hafa þjónað sam­fé­laginu svo vel á þessum erfiðu tímum,“ sagði Katrín.

Kjósum um hvaða stefna við viljum taka

Hún sagði að í kosningunum í haust verði kosið um það hvaða stefnu ís­lenskt sam­fé­lag á að taka að loknum far­aldri og að flokkur hennar vilji vísa veginn og taldi upp þær leiðir sem þau sjái færar á þeirri veg­ferð.

„Með þessi skýru gildi viljum við skapa störf og tryggja að Ís­land muni vaxa út úr þessari kreppu. Þannig tryggjum við best jöfnuð og rétt­læti, verð­mæta­sköpun og vöxt og bjarta fram­tíð fyrir sam­fé­lag okkar,“ sagði Katrín.

Hún sagði að veg­vísir flokksins í far­aldrinum hafi verið að hugsa um hag al­mennings og að öflug vel­ferð sé ó­rjúfan­legur hluti af góðu sam­fé­lagi.

Hún fór yfir þau verk­efni sem flokkurinn hefur unnið að á kjör­tíma­bilinu og hvernig þau ætla að halda á­fram að vinna að þeim málum, eins og upp­byggingu á hús­næðis­markaði, úr­bætur fyrir ör­orku­líf­eyris­þega, fram­færsla aldraðra og kostnaði sjúk­linga, upp­byggingu heilsu­gæslunnar og geð­heil­brigðis­þjónustu.

Katrín varð meyr þegar hún þakkaði ráð­herrum sínum fyrir góð störf á kjör­tíma­bilinu og fékk gesti lands­fundarins til að klappa fyrir þeim Svan­dísi Svavars­dóttur og Guð­mundi Inga Guð­brands­syni.

Mikilvægt að hlusta á þolendur

Þá vék Katrín einnig að lofts­lags­vánni og jafn­rétti kynjanna sem hún sagði enn ekki náð.

„Enn eru það ein­hverjir sem finnst erfitt að tryggja réttindi kvenna, hvort sem er yfir eigin líkama. Enn mæta sjálf­sögð jafn­réttis­mál and­stöðu í þinginu. Enn er kyn­bundið og kyn­ferðis­legt of­beldi og á­reitni mein­semd í sam­fé­laginu eins og sést á öllum þeim þol­endum sem enn stíga fram af hug­rekki og lýsa of­beldi og á­reitni. Það verður ekki undir­strikað nægjan­lega hversu mikil­vægt það sé að við sem sam­fé­lag hlustum á þol­endur of­beldis sem hafa rofið þögnina um þessi mál,“ sagði Katrín en að á sama tíma væri það dapur­legt að við séum ekki enn komin lengra og að það minni á að við getum ekki litið svo á að jafn­rétti kynjanna sé sjálf­sagt fremur en önnur mann­réttindi.

Hún fór yfir þau fram­fara­mál á sviði jafn­réttis sem hafa náð í gegn en sagði bar­áttunni ekki lokið og fór yfir þær réttar­bætur sem hafa verið kynntar á kjör­tíma­bilinu en sagði að á því næsta þyrfti að stíga enn stærri skref til að út­rýma slíku of­beldi úr sam­fé­laginu.

„Á komandi kjör­tíma­bili þarf að stíga stærri skref til að tryggja réttar­stöðu brota­þola. Þar liggur mikil vinna fyrir en ekki hefur náðst að gera nauð­syn­legar laga­breytingar til að bæta þá stöðu og úr því þarf að bæta,“ sagði Katrín.

Hún fór að lokum yfir það að í ágúst muni flokkurinn kynna kosninga­á­herslur fyrir komandi kosninga­bar­áttu.

Fundurinn er raf­rænn og er hægt að fylgjast með honum í beinu streymi hér að neðan.