Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri hreyfingarinnar græns framboðs (VG) og forsætisráðherra, flutti ávarp á tólfta landsfundi VG sem hófst fyrr í dag.
Katrín sagði frá því að hún hafi félagi í þessari hreyfingu í 21 ár eða næstum hálfa ævina.
„Á þessum tíma þá hef ég kynnst mörgu góðu fólki og margt af þessu fólki er hér,“ sagði Katrín.
Hún sagði að stjórnmál snúist annars vegar um þær hugmyndir og þau gildi sem við viljum að móti samfélag okkar og hins vegar um fólk. Hún sagði að stjórnmálin snúist um að hafa skýra stefnu fyrir samfélagið og byggja á henni í öllum sínum verkum en þau snúist líka um að hafa áhuga á fólki, geta unnið með fólki og geta skilið alls konar fólk, sjónarmið þess og aðstæður og að hana þætti hvort tveggja einkenni störf VG.
Stjórnarsamstarfið óvinsælt í byrjun
„Við höfum stundum haft óvinsælar skoðanir og tekið óvinsælar ákvarðanir þegar okkur hefur þótt þær réttar ákvarðanir. Núverandi stjórnarsamstarf var til að mynda óvinsælt af mörgum sem ákváðu fyrirfram að við myndum engu fá ráðið og engu koma í framkvæmd. En annað hefur komið á daginn,“ sagði Katrín og bætti því að kjörtímabilið hafi verið óvenjulegt og lærdómsríkt
Katrín fór yfir þær breytingar sem hafa verið innleiddar á kjörtímabilinu eins og þrepaskipt tekjuskattskerfi, að fæðingarorlof hafi verið lengt úr níu mánuðum í tólf mánuði. Hún nefndi nýja velsældarmælikvarðar og velsældaráherslur og að framlög til loftslagsmála á kjörtímabilinu hafi verið áttfölduð.
„Dýrmætur réttur hvers og eins til að velja sér kyn hefur verið tryggður með nýjum lögum og sjálfsákvörðunarréttur kvenna yfir eigin líkama – sem er undirstaða alls kynjajafnréttis – var undirstrikaður með nýjum lögum um þungunarrof – lögum sem konur höfðu barist fyrir í marga áratugi,“ sagði Katrín og að enn væri barist um það á alþjóðavettvangi.
Þá fagnaði hún styttingu vinnuvikunnar og breytingum á vaktavinnufyrirkomulagi auk fleiri breytinga.
„Þetta eru okkar málefni og þetta er mikilvægur málefnalegur árangur sem við náðum fram af því að við höfum skýra stefnu. Stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn geta nefnilega valið um það hvort þeir fylgja stefnu eða hafa einfaldlega skoðanir á öllu sem upp kemur. Hvort þeir eru vegvísar – eða vindhanar,“ sagði Katrín.

Hafa tekið erfiðar ákvarðanir
Þá vék hún að heimsfaraldrinum sem hefur sett svip á líf okkar allra undanfarna 14 mánuði. Hún sagði að viðbrögð okkar við honum hafa snúist um að vernda líf og heilsu fólksins í landinu og styðja við afkomu almennings og atvinnulífs en að í þessum viðbrögðum megi ekki gleyma því að sagan af covid-19 á Íslandi er saga af því hvernig það hafi verið teknar erfiðar ákvarðanir á Íslandi, bæði hvað varðar sóttvarnaráðstafanir hér innanlands og á landamærum –
„En þessar ákvarðanir hafa verið teknar með hagsmuni þjóðarinnar í fyrirrúmi og það hefur skilað okkur góðum árangri,“ sagði Katrín.
Hún sagði að samstaða þjóðarinnar og úthald hafi reynst mikið og mikilvægt og að þótt að markmiðin hafi verið skýr hafi faraldurinn gert öllum ljóst hvað það skiptir miklu að eiga öflugt opinbert heilbrigðiskerfi þar sem allir eiga jafnan aðgang.
Katrín þakkaði öllum þeim sem hafa staðið vaktina í faraldrinum eins og kvennastéttir, kennara, vísindafólk, strætisvagnabílstjóra og marga fleiri sem hún sagðist ekki geta talið alla upp.
„Við höfum staðið vaktina,“ sagði Katrín
Hún sagði að framundan væru krefjandi og spennandi tímar og að uppbyggingin sem blasir við þurfi að vera græn, sjálfbær og réttlát.
„Við þurfum að skapa störf, tryggja fjölbreytt atvinnu- og efnahagslíf og öflugt velferðarsamfélag. Við þurfum að standa vörð um þá innviði sem hafa þjónað samfélaginu svo vel á þessum erfiðu tímum,“ sagði Katrín.
Kjósum um hvaða stefna við viljum taka
Hún sagði að í kosningunum í haust verði kosið um það hvaða stefnu íslenskt samfélag á að taka að loknum faraldri og að flokkur hennar vilji vísa veginn og taldi upp þær leiðir sem þau sjái færar á þeirri vegferð.
„Með þessi skýru gildi viljum við skapa störf og tryggja að Ísland muni vaxa út úr þessari kreppu. Þannig tryggjum við best jöfnuð og réttlæti, verðmætasköpun og vöxt og bjarta framtíð fyrir samfélag okkar,“ sagði Katrín.
Hún sagði að vegvísir flokksins í faraldrinum hafi verið að hugsa um hag almennings og að öflug velferð sé órjúfanlegur hluti af góðu samfélagi.
Hún fór yfir þau verkefni sem flokkurinn hefur unnið að á kjörtímabilinu og hvernig þau ætla að halda áfram að vinna að þeim málum, eins og uppbyggingu á húsnæðismarkaði, úrbætur fyrir örorkulífeyrisþega, framfærsla aldraðra og kostnaði sjúklinga, uppbyggingu heilsugæslunnar og geðheilbrigðisþjónustu.
Katrín varð meyr þegar hún þakkaði ráðherrum sínum fyrir góð störf á kjörtímabilinu og fékk gesti landsfundarins til að klappa fyrir þeim Svandísi Svavarsdóttur og Guðmundi Inga Guðbrandssyni.
Mikilvægt að hlusta á þolendur
Þá vék Katrín einnig að loftslagsvánni og jafnrétti kynjanna sem hún sagði enn ekki náð.
„Enn eru það einhverjir sem finnst erfitt að tryggja réttindi kvenna, hvort sem er yfir eigin líkama. Enn mæta sjálfsögð jafnréttismál andstöðu í þinginu. Enn er kynbundið og kynferðislegt ofbeldi og áreitni meinsemd í samfélaginu eins og sést á öllum þeim þolendum sem enn stíga fram af hugrekki og lýsa ofbeldi og áreitni. Það verður ekki undirstrikað nægjanlega hversu mikilvægt það sé að við sem samfélag hlustum á þolendur ofbeldis sem hafa rofið þögnina um þessi mál,“ sagði Katrín en að á sama tíma væri það dapurlegt að við séum ekki enn komin lengra og að það minni á að við getum ekki litið svo á að jafnrétti kynjanna sé sjálfsagt fremur en önnur mannréttindi.
Hún fór yfir þau framfaramál á sviði jafnréttis sem hafa náð í gegn en sagði baráttunni ekki lokið og fór yfir þær réttarbætur sem hafa verið kynntar á kjörtímabilinu en sagði að á því næsta þyrfti að stíga enn stærri skref til að útrýma slíku ofbeldi úr samfélaginu.
„Á komandi kjörtímabili þarf að stíga stærri skref til að tryggja réttarstöðu brotaþola. Þar liggur mikil vinna fyrir en ekki hefur náðst að gera nauðsynlegar lagabreytingar til að bæta þá stöðu og úr því þarf að bæta,“ sagði Katrín.
Hún fór að lokum yfir það að í ágúst muni flokkurinn kynna kosningaáherslur fyrir komandi kosningabaráttu.
Fundurinn er rafrænn og er hægt að fylgjast með honum í beinu streymi hér að neðan.