Fram­gangur gossins er eins og búast mátti við, en gos­virknin hefur haldist nokkuð stöðug síðustu daga. Mikil­vægt er að undir­búa sig undir að gosið standi yfir í nokkuð langan tíma. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Veður­stofu Ís­lands.

Vísinda­ráð Al­manna­varna fundaði í morgun um eld­gosið á Reykja­nes­skaga, en þar fóru vísindamenn yfir nýjustu mælingar og gögn, svo unnt sé að meta stöðuna og fram­hald gossins.

Á gervi­hnattar­myndum sem sýna land­breytingar á Reykja­nes­skaga frá enda júlí­mánaðar má sjá merki um af­lögun skammt norð­austur af Grinda­vík. Af­lögunin er við upp­tök stóra jarð­skjálftans sunnu­daginn 31. júlí síðast­liðinn sem mældist 5.5 að stærð.

Þá var farið yfir önnur gögn frá svæðinu, á borð við GPS mælingar og skjálfta­gögn, en að mati vísindamanna sýna þau engar vís­bendingar um að kvika sé þar á ferð. Lík­legasta skýringin sé breytingar á yfir­borði, sem komu til vegna stóra skjálftans. Næstu daga munu vísinda­menn safna frekari gögnum til að stað­festa þetta enn frekar.

Af­lögunin sem sést á gervi­hnattar­myndum er við upp­tök stóra skjálftans þann 31. júlí sem mældist 5.5 að stærð. Hér er hún af­mörkuð af svarta kassanum.
Mynd/Veðurstofa Íslands