Ríkis­endur­skoðun hefur lokið stjórn­sýslu­út­tekt á geð­heil­brigðis­þjónustu á Ís­landi. Þar segir að mikil­vægt sé að tryggja fólki tíman­legt að­gengi að geð­heil­brigðis­þjónustu við hæfi.

Að mati Ríkis­endur­skoðunar þarf að stuðla að nægu fram­boði hæfs fag­fólks á sviði geð­heil­brigðis­mála en þar þarf að horfa til kjara, starfs­um­hverfis og hús­næðis­mála. Enn fremur þarf að tryggja nægt náms­fram­boð og náms­stöður svo vinna megi gegn skorti ein­stakra fag­stétta.

Þá leggur Ríkis­endur­skoðun á­herslu á að tryggja þurfi til­vist geð­heilsu­teyma en sum þeirra hafa ein­göngu verið fjár­mögnuð í af­markaðan tíma. Þá þarf einnig að skoða fýsi­leika þess að hafa á­vallt full­trúa fé­lags­þjónustu innan teymanna til að efla sam­starf heil­brigðis- og fé­lags­þjónustu.

Sam­kvæmt út­tektinni þarf að vera til staðar skýr fram­tíðar­sýn og mark­viss stefnu­mótun til þess að hægt sé að ná skil­virkni og árangri í geð­heil­brigðis­málum. Stefnu stjórn­valda þarf svo að fylgja eftir með að­gerðar­á­ætlun sem felur í sér skýr og vel skil­greind mark­mið, tíma­mörk og til­greinda á­byrgðar­aðila.

Í út­tektinni leggur Ríkis­endur­skoðun á­herslu á að efla þurfi söfnun upp­lýsinga, með­ferð gagna og bæta að­gengi að þeim. Eyða þurfi laga­legri ó­vissu um skil á gögnum til em­bættis land­læknis og halda betur utan um upp­lýsingar um tíðni ó­væntra at­vika í geð­heil­brigðis­þjónustu og kvartanir henni tengdri. Þá þarf að greina þjónustu- og mann­afla­þörf í geð­heil­brigðis­þjónustunni og auka yfir­sýn heil­brigðis­ráðu­neytis um kostnað við veitingu hennar.