Stéttarfélög skipverja á Júlíusi Geirmundssyni ÍS 270 hafa sent kröfu til Héraðsdóms Vestfjarða að fram fari sjópróf vegna hópsmits um borð í togaranum og jafnframt sent lögreglustjóranum á Vestfjörðum kæru þar sem útgerðin Gunnvör hf. og fyrirsvarsmenn hennar eru kærð til lögreglu vegna mögulegra brota á sjómannalögum, sóttvarnarlögum og almennum hegningarlögum.

Júlíus Geirmundsson kom til hafnar á Ísafirði 20. október síðastliðinn og reyndust þá 22 af 25 skipverjum vera smitaðir af Covid-19. Útgerðin, Gunnvör hunsaði tilmæli umdæmislæknis sóttvarna á Vestfjörðum um að togaranum yrði snúið til hafnar eftir að grunur kom upp um smit um borð. Þess í stað afréð útgerðin að ljúka veiðiferð sem stóð í um þrjár vikur, með fjölda veikra skipverja um borð.

„Með því framferði má telja að útgerðin, og kærðu fyrirsvarsmenn hennar þar með, hafi stofnað skipverjum og skipinu sjálfu í verulega hættu," segir í kærunni.

Stéttarfélögin ítreka að nauðsynlegt er að rannsaka málið í kjölinn og draga þá til ábyrgðar sem stóðu að ákvörðunum í málinu. Stéttarfélögin telja nú sem aldrei fyrr nauðsynlegt að standa saman og tryggja að atvik sem þessi geti ekki endurtekið sig og að ljóst sé að útgerðarfélög geti ekki komist upp með að stefna starfsmönnum sínum í slíka hættu.

Kærendur eru eru stéttarfélög skipverja á togaranum Júlíusi Geirmundssyni, Félag skipstjórnarmanna, Sjómannafélag Íslands, Sjómannasamband Íslands, Verkalýðsfélag Vestfirðinga og VM – félag vélstjóra og málmtæknimanna. Kærðu eru Einar Valur Kristjánsson, framkvæmdastjóri Gunnvarar hf., Valdimar Steinþórsson útgerðarstjóri og Sveinn Geir Arnarsson sem var skipstjóri í umræddri veiðiferð.

Með kæruni er farið fram á að lögregla rannsaki atvik málsins nánar og þátt fyrirsvarsmanna útgerðarinnar í þeim.