Mikið álag er á heilbrigðisstofnunum landsins vegna COVID-19 faraldursins. Áhersla er lögð á að koma í veg fyrir smit meðal aldraðra og langveikra sjúklinga en þó að umfangið sé meira en áður eru slíkar varúðarráðstafanir eðlilegur hluti af starfsemi stofnana.

„Umgangspestir koma á hverju ári og við erum vön því að gera allt sem í okkar valdi stendur til að verja sjúklinga okkar og okkur sjálf fyrir þeim,” segir Guðríður Kristín Þórðardóttir, sérfræðingur í hjúkrun hjartasjúklinga á Landspítalanum.

Ef sjúklingur smitast af inflúensu eða COVID-19 getur heilsu hans hrakað mjög hratt. Á hátæknisjúkrahúsi er hægt að ganga mjög langt til þess að halda sjúklingum á lífi en í mörgum tilvikum liggja ekki fyrir upplýsingar um hvort það sé vilji einstaklingsins. Að sögn Guðríðar sýna rannsóknir að oft fá aldraðir sjúklingar meðferð sem þeir kæra sig ekkert endilega um að fá. Úr því sé mikilvægt að bæta og það sé aðeins hægt með opinskáu samtali.

„Ef alvarlegar aðstæður koma upp þá er ekki víst að umfangsmikil inngrip dugi til. Ef viðkomandi hefur svo veikindin ekki af þá hefur aðdragandi þess andláts verið mun erfiðari og lengri en hefði þurft ef inngrip hefðu verið færri. Þeir sem lifa af slíkar hremmingar eiga síðan oft og tíðum langt og strangt endurhæfingarferli fyrir höndum, sem jafnvel ber ekki árangur. Lífsgæði þeirra skerðast gjarnan með skertri athafnagetu og sjálfstæði þeirra er ógnað. Álag á umönnunaraðila eykst ásamt þörf fyrir flutning á hjúkrunarheimili. Þetta eru aðstæður sem við störfum við allan ársins hring með tilheyrandi sveiflum sem tengjast flensutímabilum,” segir Guðríður.

Að hennar sögn myndi það auðvelda slíkar aðstæður gríðarlega fyrir alla aðila ef fyrir lægi hver vilji sjúklingsins væri.

„Allt of fáir fá tækifæri til að svara þeirri spurningu tímanlega og við yfirvegaðar aðstæður, hvort þeir vilji að lífi þeirra sé viðhaldið ef viðkomandi á ekki afturkvæmt til sömu eða betri heilsu en hann lifir við í dag,” segir Guðríður.

Hennar reynsla sé sú að aldraðir einstaklingar óttist ekki dauðann. „Þeir óttast kannski aðdraganda hans, en ekki dauðann sjálfan. Aldraðir með vaxandi hrumleika óttast frekar að missa sjálfstæði sitt vegna enn meiri hrumleika. Sjúklingar mínir hafa tjáð mér að það sem skipti þá mestu máli sé að geta búið heima við ásættanleg lífsgæði og öryggistilfinningu og að vera ekki öðrum háður. Þá hefur fólk tjáð mér að það óttist það mest að vera byrði á fjölskyldu sinni,” segir Guðríður.

Guðríður segir að erfitt geti reynst að byrja samtal milli ástvina um slíkar aðstæður en oft sé mikill léttir sem fylgi því að ræða slíkt. „Það getur verið ákveðin hughreysting fyrir einstakling að vita að á ögurstundu séu það hans óskir og lífsviðhorf sem höfð eru að leiðarljósi við val á meðferð. Að þrátt fyrir alla óvissu á þessum hamfaratímum hafi einstaklingur þó þessa stjórn á aðstæðum sínum,” segir hún.

Guðríður hvetur alla til að ígrunda og ræða hvað skipti mestu máli í daglegu lífi og hvort einhverjar óskir séu varðandi lífslok. Ákjósanlegast væri að óskirnar væru skráðar í sjúkraskrá, til að tryggja sem best að þeim verði framfylgt. „Þeim upplýsingum er svo alltaf hægt að breyta ef áherslur breytast,“ segir Guðríður.

Gagnlegar hugleiðingar

  • Hvað skiptir mig mestu máli í mínu lífi?
  • Hvaða færni/getu get ég ekki hugsað mér að lifa án?
  • Við hvaða aðstæður myndir þú ekki vilja lifa?
  • Hvernig myndi ég vilja deyja?
  • Hvar og hverja myndi ég vilja hafa hjá mér?
  • Hvaða læknisfræðilega inngrip myndi ég ekki kæra mig um ef mér stæði það til boða?
  • Hvernig vil ég alls ekki deyja?
  • Hver væri best/ur til þess fallinn að tala mínu máli ef ég gæti það ekki sjálf/ur?
  • Ef þú yrðir bráðkvaddur/-kvödd, myndir þú vilja að reynt yrði að lífga þig við?