Una Hildar­dóttir, for­seti Lands­sam­bands ung­menna­fé­laga (LUF), brýndi fyrir fjölmiðlum og yfirvöldum að hætta að tala yfir­lætis­lega til ungs fólks í landinu í tengslum við CO­VID-19.

„Við erum að gera okkar besta við að rækja okkar hlut­­verk sem mál­­svari ungs fólks gagn­vart stjórn­völdum og sem slíkur mál­­svari brýnum við fyrir yfir­­völdum og fjöl­­miðlum að þegar þörf krefur að til­­­taka ungt fólk sér­­stak­­lega fram fyrir aðra hópa að það skal gæta þess að tala við ungt fólk en ekki til þeirra,“ sagði Una á upp­­­lýsinga­fundi al­manna­varna en hún var gestur fundarins í dag.

„Við höfum fundið fyrir þeirri lensku núna að ungt fólk sé líkt og oft áður tekið út fyrir sviga og það sé rætt um það eins og ein­hvern hóp sem er ekki hluti af sam­talinu, eins og geim­verur. Það er mikil­­vægt að það sé hætt að hugsa að það þurfi að finna ein­hverjar leiðir til þess að ná betur til þeirra, eins og þau búa í ein­hverju öðru sam­­fé­lagi. Það þarf ekki að klóra sér í hausnum og velta því fyrir sér hvað ungt fólk er að hugsa að það er mjög auð­velt að spyrja,“ sagði Una.

Fyrir helgi skapaðist mikil um­ræða í sam­fé­laginu eftir um­mæli Val­geirs Magnús­­sonar, stjórnar­­for­­manns aug­­lýsinga­­stofunnar Pipar í morgunút­varpi Rásar 2. Þar sagði hann að hár fjöldi smita fólks undir fer­tugu kalli á nýja nálgun í upp­­­lýsinga­­gjöf.

Þar sagði hann meðal annars að svo virðist vera sem ungt fólk sjái ekki nægan til­­­gang í að breyta lífi sínu í ó­­tak­­markaðan tíma einungis fyrir al­manna­heill. Yngra fólk sé minna hrætt við að fá CO­VID-19 vegna radda um að ungt fólk veikist lítið.

Á upp­lýsinga­fundinum í dag sagði Alma D. Möller, land­læknir, að ungt fólk væri að sýkjast og veikjast í meira mæli í þessari seinni bylgju, bæði hér­lendis og í Evrópu. Tveir ungir ein­staklingar hafa meðal annars verið lagðir inn á spítala á síðustu dögum.

Sam­kvæmt könnun Gallup hefur ungt fólk jafn­miklar á­hyggjur af far­aldrinum og fólk á miðjum aldri. Þá benti Una á að að væri enginn munur á þessum hópum þegar skoðað er hversu mikið fólk hefur breytt venjum sínum til að forðast smit.

„Það er mikil­­vægt að við komum í veg fyrir yfir­­lætis­­lega um­­ræðu um ein­s­taka þjóð­­fé­lags­hópa og gefum þeim vett­vang til að tjá sig og sína upp­­lifun,“ sagði Una. „Mér finnst líka við­eig­andi að taka fram að það er fjöl­margt fólk í fram­línu­­störfum, bæði í þjónustu- og um­­önnunar­­störfum, fyrir þessa við­­kvæmustu hópa er ein­mitt ungt fólk. Það er að leggja sig allt fram í bar­áttunni við Co­vid-19,“ sagði hún enn fremur.

Ungt fólk er að upp­­lifa á­­falla­­streitu­röskun

Una benti jafn­framt á að ungu fólki líður einnig illa í þessu á á­standi og það væri mikilvægt að passa upp á að ungt fólk einangrist ekki í þessari seinni bylgju.

„Ungt fólk er að upp­­lifa einkenni á­­falla­­streitu­röskunar núna þegar þessi önnur bylgja er að fara af stað. Það er mikil­­vægt líka að passa upp á það að ungt fólk ein­angrist ekki en ungt fólk leitar í fé­lags­­legar að­­stæður vegna þess að það er þeirra hópur. Það er þangað sem þau leita til þess að fá ein­hvers konar fé­lags­­lega þörf,“ sagði Una.

Hún sagði það væri afar mikilvægt fyrir ungt fólk að vera í samskiptum við einhvern annan en bara mömmu og pabba. „Það er of­­boðs­­lega mikil­­vægt að við virðum það,“ sagði Una að lokum.