Umræður um stefnuræðu forsætisráðherra fóru fram á Alþingi í gærkvöldi og má segja að það marki upphaf þingstarfa þennan veturinn. Umræða um efnahagsmál og loftslagsmál var fyrirferðarmikil í ræðum þingmanna í gær.

„Loftslagsváin er að skapa neyðarástand nú þegar víða um heim. Hún er okkar stærsta áskorun. Mannkynið ber ábyrgð á ástandinu, mannkyninu stafar ógn af því og nú er stærsta verkefni mannkynsins að draga úr hraða þessarar ógnvænlegu þróunar,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra í stefnuræðu sinni.

Flestir þingmenn, sem ræddu loftslagsmál í ræðum sínum, voru sammála forsætisráðherra og töldu mikla vá steðja að heiminum öllum. Hins vegar var formaður Miðflokksins á öðru máli og talaði um sýndarpólitík.

Þingmenn voru margir hverjir sammála um að staða íslensku þjóðarinnar væri góð þar sem næg væru efnin fyrir alla. Hins vegar, eins og tíðkast í stjórnmálum, voru þingmenn ósammála um forgangsröðun og hvernig verðmætunum væri skipt milli þegnanna.

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, sagði í umræðunni um stefnuræðu Katrínar að hann hefði ákveðið að endurreisa fæðingarorlofskerfið með því að lengja rétt foreldra til fæðingarorlofs og hækka hámarksgreiðslur. Samanlagður réttur foreldra verði tólf mánuðir árið 2021. Að auki bætti Lilja Alfreðsdóttir við að markmið hennar í ríkisstjórn væri að skattleggja auglýsingar á Facebook og Google til jafns á við skattlagningu til innlendra fjölmiðla.

Að auki mátti finna rauðan þráð í gegnum margar ræðurnar sem voru um traust almennings á stjórnmálin í landinu og hvernig einstaklingar tali saman sem starfa á vettvangi stjórnmála. Voru þeir allir tilbúnir til þess að fara yfir málin af yfirvegun og bæta menninguna í íslenskum stjórnmálum og reyna í lengstu lög að bera meiri virðingu hver fyrir öðrum.

„Ef við sem almennir borgarar hættum að fylgjast með af því að okkur misbýður vitleysan, hættum að taka þátt, hættum að tjá okkur, hættum jafnvel að kjósa, þá skiljum við eftir pláss á sviðinu sem aðrir munu nýta sér,“ sagði Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir í ræðu sinni.