Unnsteinn Jóhannsson, varaformaður Samtakanna 78, gladdist yfir því hve mikill vilji var hjá opinberum stofnunum og fyrirtækjum að draga fána hinsegin fólks að húni í gær. „Þetta voru skýr og góð skilaboð til Mike Pence, sem rekur persónulega og pólitískt mjög hatursfulla stefnu gagnvart hinsegin fólki,“ segir Unnsteinn í samtali við Fréttablaðið.

Samtökin báru þó ekki ábyrgð á dreifingu fánanna. „Við vorum upptekin við að skipuleggja fjöldamótmæli á Austurvelli vegna heimsóknarinnar en persónulega finnst mér þetta vera frábær viðbót við daginn í gær.“ Katrín Oddsdóttir og Tótla meðlimir samtakanna sáu um að dreifa fánunum í eigin nafni að sögn Unnsteins.

Fjölbreytileikanum fagnað

Gleðistund hafi ríkt í gær þar sem samstaða var í fyrirrúmi. „Flestar opinberar stofnanir og fyrirtæki ákváðu að nota hinsegin fánann til að sýna að íslenskt samfélag fagni fjölbreytileikanum.“ Unnsteinn segir mikilvægt að sýna stuðning í verki.

Einhverjir hafa gagnrýnt að fánunum hafi verið flaggað og telur Unnsteinn það bjóða upp á dýpri umræðu. Hann segir það hafa verið mikið rætt hjá Samtökunum 78 og hinsegin samfélaginu hvar mörkin liggji milli þess að styðja eða nýta sér réttindabaráttu hinsegin fólks.

Auglýsing eða stuðningsyfirlýsing

„Eftir Hinsegin daga í fyrra hófust spurningar að vakna um hvenær fyrirtæki væru að fegra sig og hvenær þau væru að sýna stuðning í verki og hvar línan liggi þess á milli.“ Svokallaður „bleikþvottur“ er í umræðunni um allan heim um þessar mundir og mörg fyrirtæki eru sögð nýta sér baráttutákn minnihlutahópa í auglýsingaskyni án þess að styðja téða baráttu.

„Það er mikilvægt að horfa hvað stendur að baki álíka yfirlýsingum og má þar athuga hvort fyrirtæki séu með hinsegin starfsmannastefnu eða hvort þau útiloki hinsegin starfsmenn, svo dæmi sé tekið.“ Unnsteinn segir mjög skiptar skoðanir vera innan hinsegin samfélagsins um málefnið.

Hér smá regnbogafána hinsegin fólks fyrir framan höfuðstöðvar Advania.
Fréttablaðið/Anton Brink

Hinsegin fólk er allskonar

„Hinsegin fólk er allskonar og þetta er svo stór og breiður hópur þar sem skiptar skoðanir eru á hlutum.“ Eðli málsins samkvæmt segist Unnsteinn því ekki geta talað fyrri hönd allra. „Mörgum finnst frábært að fyrirtæki dragi hinsegin fánann á loft á meðan öðrum finnst það vera yfirklór fyrir eitthvað annað.“

Samtökin 78 hyggjast standa að málþingi um bleikþvott í vetur. „Þetta er djúp og mikilvæg umræða sem þarf að eiga sér stað innan hinsegin samfélagsins,“ bætir Unnsteinn við. Hann telur að áhugavert verði að heyra hver upplifun fólks á málefninu hefur verið og hlakkar til að sjá sem flesta.