„Það sem ég hef séð af málinu er úr til­kynningu biskups, og það sem farið hefur þarna fram held ég því miður að hún hafi verið nauð­syn­leg,“ segir Eva Björk Valdimars­dóttir, vara­for­maður Presta­fé­lags Ís­lands, um á­kvörðun biskups að víkja séra Gunnari Sigur­jóns­syni úr starfi og veita honum skrif­lega á­minningu vegna á­sakana sex kvenna um kyn­ferðis­legt á­reiti, kyn­bundið of­beldi og ein­elti.

Á föstu­daginn í síðustu viku fór for­maður Presta­fé­lags Ís­lands, Arnaldur Bárðar­son, í við­tal á Út­varp Sögu, þar sem hann ræddi mál Gunnars opin­skátt og efnis­lega, áður en skýrsla ó­háðs teymis kirkjunnar, sem hafði rann­sakað mál Gunnars í marga mánuði, var gerð opin­ber.

Tals­verður hiti myndaðist í kjöl­far við­talsins innan prests­stéttarinnar, og hefur Arnaldur beðist af­sökunar í opinni færslu á Face­book síðu sinni.

Spurð segir Eva Björk að þetta við­tal við Arnald vissu­lega ekki hafa verið nógu gott.

„Hann hefur beðist af­sökunar í nokkrum liðum, að honum þyki leiðin­legt að hafa sært fólk. Hann hélt að málið væri öðru­vísi en hefur komið í ljós núna, eftir að við sáum til­kynningu biskups,“ segir Eva Björk.

Þá sé það ekki hennar að dæma um það hvort af­sökunar­beiðni á þessum vettvangi sé nóg.

„Ef ég er að fara að gefa út yfir­lýsingu um það er ég að taka valdið af konunum sem af­sökunar­beiðnin beinist að. Það er í þeirra valdi að á­kveða hvort það sé nóg eða ekki.“

Eva Björk segist gera ráð fyrir því að málið verði rætt nánar á fé­lags­fundi Fé­lags prest­vígðra kvenna sem haldinn verður í kvöld, en þrjár af þeim sex konum sem stigu fram eru með­limir fé­lagsins.

„En á hvaða nótum veit ég ekki alveg. Það á eftir að koma í ljós. Við þurfum að hlusta á hvað þær hafa að segja, þessar þrjár konur, og það er kannski það mikil­vægasta. Það er mikil­vægt að hafa þennan fé­lags­skap, fé­lag Prest­vígðra kvenna, til að ræða svona mál því þau eru alltaf greinilega að koma upp,“ segir Eva Björk, og bætir við: „svo kemur í ljós hvað gerist á fundinum eftir það og hvernig þeim líður með þetta mál.“

Hér fyrir neðan er hægt að sjá við­talið við Evu Björk í heild sinni, en hún ræddi málið á Frétta­vaktinni á Hring­braut fyrr í kvöld.