Bólu­setningar hjá þeim sem fengu bólu­efni Jans­sen í vor og í sumar halda á­fram í dag þar sem boðið verður upp á örvunar­skammt en allir þeir sem fengu Jans­sen og hafa ekki sögu um Co­vid-sýkingu ættu að hafa fengið boð í vikunni. Þór­ólfur Guðna­son sótt­varna­læknir segir mikil­vægt að allir mæti.

Boðið var upp á örvunar­skammta með Moderna í gær og í fyrra­dag þar sem gert var ráð fyrir um 11 þúsund manns í dag en tölu­vert færri mættu til að mynda á mánu­dag, þar sem rúm­lega sex þúsund mættu. Fram­kvæmda­stjóri hjúkrunar hjá Heilsu­gæslu höfuð­borgar­svæðisins sagði það von­brigði.

Að­spurður um hvort það sé á­hyggju­efni að færri séu að koma en voru boðaðir segir Þór­ólfur svo vera þar sem gögnin sýna greini­lega að bólu­setning komi í veg fyrir smit og sér­stak­lega al­var­leg veikindi. Þá séu al­var­legar auka­verkanir fá­tíðar eftir bólu­setningu, mikið fá­tíðari en af Co­vid-sýkingu.

„Við erum að sjá að flestir bólu­settir sem eru að greinast með smit voru bólu­settir með Jans­sen bólu­efninu þannig það er mjög mikil­vægt að efla þeirra varnir enn frekar með því að gefa þeim örvunar­skammt,“ segir Þór­ólfur í sam­tali við Frétta­blaðið.

Á morgun verður síðan ráðist í það að bjóða ein­stak­lingum 90 ára og eldri sem fengu bólu­efni Pfizer í vetur þriðja skammtinn og í næstu viku verða börn á aldrinum 12 til 15 ára bólu­sett með bólu­efni Pfizer. Endan­leg út­færsla á hverjir fá síðan örvunar­skammta liggur ekki fyrir að svo stöddu.

„Það verður byrjað bara á þessum við­kvæmu hópum, eins og inni á hjúkrunar­heimilum og öðrum stöðum, og svo munum við væntan­lega bara fikra okkur eitt­hvað niður eftir aldri,“ segir Þór­ólfur. „Það er ekki hægt að gera allt í einu, við þurfum að for­gangs­raða svo­lítið.“

Innlögnum gæti fjölgað þar sem faraldurinn er í vexti

Enn er nokkur fjöldi smita að greinast innan­lands en í gær greindust 124 með veiruna. Flestir sem nú eru að greinast eru bólu­settir og utan sótt­kvíar við greiningu. Þór­ólfur segir far­aldurinn vera í línu­legum vexti þrátt fyrir að tölurnar sveiflist milli daga, sér­stak­lega um helgar.

„Ég myndi segja að þessar að­gerðir sem eru í gangi og allt sem er verið að gera núna er að halda smitunum í línu­legum vexti. En við erum kannski ekkert endi­lega að hafa á­hyggjur af þessari tölu, heldur hvernig þær endur­speglast í inn­lögnum á spítalann,“ segir Þór­ólfur.

Á Land­spítala eru nú 25 inni­liggjandi, þar af fimm á gjör­gæslu, en inn­lögnum virðist ekki fara fjölgandi og er það í takt við spá spítalans. Þór­ólfur segir þó enn marga inni­liggjandi og að starf­semi spítalans sé mjög þung. Ef far­aldurinn fer ekki niður er hætta á því að það gæti bætt í en það væri ó­skandi ef inn­lögnum fækkar.

„Svo getur þetta líka breyst þegar skólarnir eru að byrja, það má alveg búast við því að út­breiðslan verði meiri og þá er það spurningin, mun það skila sér í smitum til þeirra sem munu veikjast verr og þurfa á inn­lögn á spítalann að halda? Það er það sem málið snýst um,“ segir Þór­ólfur.

Aðgerðir ráðast af stöðu Landspítala

Nú­verandi reglu­gerð um sam­komu­tak­markanir, sem kveður á um 200 manna sam­komu­bann, eins metra reglu og grímu­skyldu, er í gildi til 27. ágúst næst­komandi. Að­spurður um hvort það gæti þurft að herða að­gerðir í ljósi stöðunnar segir Þór­ólfur það allt háð stöðunni á Land­spítala.

„Það er það sem við erum að skoða með stjórn­völdum, hvernig er hægt að bregðast við [stöðunni á Land­spítala], hvort það sé hægt að halda á­standinu svona eins og það er, hvort önnur starf­semi spítalans muni þola það, og önnur þjónusta við sjúk­linga, eða hvort það þurfi að reyna að ná kúrfunni enn frekar niður,“ segir Þór­ólfur.

„Það verður náttúru­lega að hafa í huga að það tekur um það bil tvær vikur að sjá árangurinn, eftir að kúrfan fer niður þá mun það ekki skila sér inn í spítalann fyrr en eftir svona tvær vikur,“ segir Þór­ólfur enn fremur.