„Þetta eru merkileg tíðindi. Niðurstaðan er afgerandi og sautján dómarar dómsins einhuga um að brotið hafi verið gegn 6. greininni. Í undirdeildinni klofnaði og þar voru fimm á móti tveimur. Þannig þetta er afdráttarlaus niðurstaða,“ segir Berglind Sverrisdóttir, formaður Lögmannafélags Íslands, um dóm yfirdeildar Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) sem greint var frá í fréttum í gær.
Að mati félagsins er brýnt að það verði brugðist við dómnum að sögn Berglindar. Í stuttri yfirlýsingu sem hún sendi Fréttablaðinu fyrir hönd félagsins segir að mati þess sé „um afgerandi niðurstöðu að ræða í dómi yfirdeildar MDE en 17 dómarar réttarins voru einhuga um að brotið hefði verið gegn 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu. LMFÍ telur mikilvægt að íslenska ríkið bregðist við þessum dómi af festu, taki mark á þeim leiðbeiningum sem fram koma í dómi yfirdeildarinnar og geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir að álíka brot eigi sér stað í framtíðinni.“
Hún segir að bein áhrif dómsins séu ekki mjög mikil í raun.
„Hann er meira að horfa á að ríkið verði að gera eitthvað til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur en með því að árétta sérstaklega að þessi niðurstaða feli ekki í sér skyldu til að endurupptaka öll mál. Það þýðir að aðilar geta óskað eftir endurupptöku í sínum málum í nýjum endurupptökudómstól sem tók einmitt til starfa í gær, reyndar án dómara,“ segir Berglind.
Hún segir að nú sé þannig búið að rýmka þau skilyrði sem þurfa að koma fram í máli svo það verði endurupptekið og er, meðal annars, gert ráð fyrir því að úrlausnir alþjóðlegra dómstóla geti haft áhrif á það og það geti talið til nýrra gagna. Hún segir erfitt að vita hvernig það fari en að dómurinn sé með þessu að horfa til framtíðar með þessum dómi.
Hún segir að þá sé einnig athyglisvert að hugsa til þess að nú eru fjórir dómarar við Landsrétt og að þrír þeirra hafi verið skipaðir aftur en ekki einn.
„Það hlýtur að þurfa að skoða hver staða hans verður,“ segir Berglind.
Berglind segir að í dómi sé skýr gagnrýni á öll stjórnsýslustig sem að málinu komu og telur mikilvægt að stjórnvöld bregðist við sem fyrst.
„Það er gerð athugasemd við meðferð ráðherra, við meðferð Alþingis, við forseta og við Hæstarétt og setur þannig fram gagnrýni á alla valdhafa stjórnskipunarinnar. Þetta er alvarlegt brot og það þarf að bregðast við því með þeim hætti sem unnt er. Þó svo að dómurinn feli ekki í sér einhverja ákveðna röskun á því ástandi sem nú er þá er dómurinn að senda frá sér skýr skilaboð og stjórnvöld hér verða að taka þetta alvarlega og sjá til þess að þetta gerist ekki í framtíðinni og gera viðeigandi ráðstafanir til þess,“ segir Berglind að lokum.