„Þetta eru merki­leg tíðindi. Niður­staðan er af­gerandi og sau­tján dómarar dómsins ein­huga um að brotið hafi verið gegn 6. greininni. Í undir­deildinni klofnaði og þar voru fimm á móti tveimur. Þannig þetta er af­dráttar­laus niður­staða,“ segir Berg­lind Sverris­dóttir, for­maður Lög­manna­fé­lags Ís­lands, um dóm yfir­deildar Mann­réttinda­dóm­stóls Evrópu (MDE) sem greint var frá í fréttum í gær.

Að mati fé­lagsins er brýnt að það verði brugðist við dómnum að sögn Berg­lindar. Í stuttri yfir­lýsingu sem hún sendi Frétta­blaðinu fyrir hönd fé­lagsins segir að mati þess sé „um af­gerandi niður­stöðu að ræða í dómi yfir­deildar MDE en 17 dómarar réttarins voru ein­huga um að brotið hefði verið gegn 6. gr. mann­réttinda­sátt­mála Evrópu. LMFÍ telur mikil­vægt að ís­lenska ríkið bregðist við þessum dómi af festu, taki mark á þeim leið­beiningum sem fram koma í dómi yfir­deildarinnar og geri við­eig­andi ráð­stafanir til að koma í veg fyrir að á­líka brot eigi sér stað í fram­tíðinni.“

Hún segir að bein á­hrif dómsins séu ekki mjög mikil í raun.

„Hann er meira að horfa á að ríkið verði að gera eitt­hvað til að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur en með því að á­rétta sér­stak­lega að þessi niður­staða feli ekki í sér skyldu til að endur­upp­taka öll mál. Það þýðir að aðilar geta óskað eftir endur­upp­töku í sínum málum í nýjum endur­upp­töku­dóm­stól sem tók ein­mitt til starfa í gær, reyndar án dómara,“ segir Berg­lind.

Hún segir að nú sé þannig búið að rýmka þau skil­yrði sem þurfa að koma fram í máli svo það verði endur­upp­tekið og er, meðal annars, gert ráð fyrir því að úr­lausnir al­þjóð­legra dóm­stóla geti haft á­hrif á það og það geti talið til nýrra gagna. Hún segir erfitt að vita hvernig það fari en að dómurinn sé með þessu að horfa til fram­tíðar með þessum dómi.

Hún segir að þá sé einnig at­hyglis­vert að hugsa til þess að nú eru fjórir dómarar við Lands­rétt og að þrír þeirra hafi verið skipaðir aftur en ekki einn.

„Það hlýtur að þurfa að skoða hver staða hans verður,“ segir Berg­lind.

Berglind segir að í dómi sé skýr gagnrýni á öll stjórnsýslustig sem að málinu komu og telur mikilvægt að stjórnvöld bregðist við sem fyrst.

„Það er gerð at­huga­semd við með­ferð ráð­herra, við með­ferð Al­þingis, við for­seta og við Hæsta­rétt og setur þannig fram gagn­rýni á alla vald­hafa stjórn­skipunarinnar. Þetta er al­var­legt brot og það þarf að bregðast við því með þeim hætti sem unnt er. Þó svo að dómurinn feli ekki í sér ein­hverja á­kveðna röskun á því á­standi sem nú er þá er dómurinn að senda frá sér skýr skila­boð og stjórn­völd hér verða að taka þetta al­var­lega og sjá til þess að þetta gerist ekki í fram­tíðinni og gera við­eig­andi ráð­stafanir til þess,“ segir Berg­lind að lokum.