Harpa Björnsdóttir hjá fagráði íslenskra leiðsögumanna telur mikilvægt að hafa landvörslu við Reynisfjöru.

Að hafa einhvern sýnilegan á svæðinu breyti hegðun ferðamanna. Hún upplifi það sjálf þegar hún er á svæðinu í merktum leiðsögujakka.

„Minn leiðsögujakki er eldrauður með íslenska fánanum á armi og merki leiðsögumannafélagsins og mínu nafni og aftan á stendur Tourist guide. Það eru auðvitað ekki allir leiðsögumenn í þessari tegund af flík en svei mér þá, hún virkar eins og segull,“ segir Harpa í samtali við Margréti Erlu Maack í Fréttavaktinni á Hringbraut í kvöld.

Kletturinn eins og typpi

Herferðir og „trend“ á samfélagsmiðlum geti sömuleiðis skapað hættur.

Harpa minnist eins vinsæls uppátækis á samfélagsmiðlum í Kína þar sem ungir karlmenn gengu niður í flæðarmálið, lögðust niður og stilltu myndavélinni upp þannig að einn klettanna í sjónum virtist vera eins og getnaðarlimur þeirra.

„Þá þurftu þeir að liggja á ákveðnum stöðum í fjörunni til að það virkaði og maður sá að þetta vakti mikla ánægju,“ segir Harpa.