„Þetta getur skipt heimili mun meira máli en áður, nú þegar þau eru mörg hver búin að fjárfesta í rafmagnsbílum og orkunotkunin er farin að aukast talsvert mikið,“ segir Hanna Björg Konráðsdóttir, lögfræðingur Orkustofnunar.

„Við hvetjum neytendur til að gera verðsamanburð og að vera vakandi yfir þróun rafmagnsverðs til heimila. Það er mun meiri samkeppni nú á smásölumarkaði með raforku og þar með talið raforkusölu til heimila en var fyrir nokkrum árum síðan.“

Heimili hafa getað valið sér sölufyrirtæki frá árinu 2006 en það var ekki fyrr en 2019 sem samkeppni varð virk. „Það barst kvörtun um að dreifiveiturnar settu neytendur sjálfkrafa í viðskipti við fyrirtæki þeim tengd,“ segir Hanna Björg.

Hún segir meginmarkmiðið með því að hafa sölufyrirtæki til þrauta­varaviðskipta vera að tryggja að neytendur fái raforku þrátt fyrir að hafa ekki valið sér raforkusala. Orkustofnun rannsakar nú verðlagningu N1 Rafmagns, áður Íslenskrar orkumiðlunar, á raforku til viðskiptavina sem völdu ekki að vera í viðskiptum við fyrirtækið. N1 Rafmagn hefur viðurkennt að hafa verið með tvö verð og verður mismunurinn endurgreiddur aftur til 1. nóvember. Hanna Björg segir marga þætti til skoðunar.

„Við þurfum að leggjast yfir það hvort það séu aðrar leiðir færar til að ná þeim markmiðum sem þessu fyrirkomulagi var ætlað að koma á, það er að neytendur standi ekki skyndilega uppi orkulausir og tryggt verði með betri hætti að þeir velji sér raforkusala,“ segir Hanna Björg.