Bryndís Ýr Gísladóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands segir að það sé ekki nein breyting á eldgosinu sem þau sjái.
„Það eru engar vísbendingar um að það sé að aukast eða minnka,“ segir Bryndís.
Það er talsverð gasmengun á svæðinu og á vef Veðurstofunnar má sjá spá um dreifingu gasmengunar og samkvæmt nýjustu spánni er ekki talin hætta af gasinu í byggð. Í hugleiðingum veðurfræðings í dag segir að búast megi við gasmengun vegna eldgossins á Reykjanesi, mest nærri upptökunum. Gasdreifing er til norðausturs frá gosstöðvunum í átt að höfuðborgarsvæðinu, en ólíklegt er að gasstyrkur verði hættulegur þar.,
„Það er gott að skoða spár sem eru fyrir gasmælingar og annað,“ segir Bryndís Ýr.

Magn brennisteinsdíoxíðs skiptir máli
Í tilkynningu frá Veðurstofunni segir að það sé mjög mikilvægt fyrir spálíkön um gasdreifingu að hafa nákvæmar upplýsingum um brennisteinsdíoxíðs (SO2) við upptök eldgos. Melissa Anne Pfeffer og Tryggvi Hjörvar, starfsmenn Veðurstofunnar, fóru því að upptökunum laugardag og sunnudag og mældu magn brennisteinsdíoxíðs með fjarkönnunarbúnaði svokölluðum DOAS (Differential Optical Absorption Spectroscopy).
Magn brennisteinsdíoxíðs reyndist vera í samræmi við núverandi gildi sem eru notuð við líkanareikning, um 15 - 55 kg/s.
Til þess að reikna spálíkön fyrir gasdreifingu þarf einnig að vita hæð gosmakkarins, staðsetningu gossprungunnar og veðurskilyrði á svæðinu. Hæð gosmakkarins er mæld með kvarðaðri vefmyndavél. Þetta er aðferð sem er þróuð af Talfan Barnie á Veðurstofunni og má sjá dæmi hér að neðan.
Líkanreikningar eru keyrðir tvisvar á sólarhring þegar nýjasta veðurspá er aðgengileg og niðurstöðurnar birtar á vef Veðurstofunnar.
