Tón­listar­maðurinn Sigur­bjartur Sturla Atla­son, betur þekktur sem Sturla Atlas, fer hörðum orðum um fram­komu lög­reglu gagn­vart rapparanum Ís­leifi Eldi Illuga­syni í sal Gróttu síðast­liðið föstu­dags­kvöld.

Ís­leifur birti í gær færslu á Insta­gram þar sem hann sakaði lög­reglu­mann um að hafa brotið skjá á tölvunni sinni. Ís­leifur var að spila á bjór­kvöldi sem áður hefur verið greint frá en for­eldrar á Sel­tjarnar­nesi lýstu yfir miklum á­hyggjum vegna bjór­kvöldsins og stöðu æsku­lýðs­mála á nesinu.

Sturla Atlas tjáir sig um fréttir af málinu á Face­book og segir að í ljósi um­ræðu síðustu vikna sé mikil­vægt að for­dæma slíka fram­komu lög­reglu og skoða hana frekar.

„Lög­reglan og ráð­herra hafa verið að basúna á­róðri um gengja­stríð á Ís­landi og bók­staf­lega lýst yfir stríði vegna þess – og nú á sko að ganga hart fram og taka á málunum,“ segir Sturla og vísar þar til um­mæla Jóns Gunnars­sonar, dóms­mála­ráð­herra sem lýsti í síðustu viku yfir stríði gegn skipu­lagðri glæpa­starf­semi.

Sturla segir að þarna verði tón­listar­maður fyrir því í miðri fram­komu að lamb­hús­hettu­klæddur lög­reglu­maður brjóti tölvuna hans. „Sem jafn­framt er hans mikil­vægasta vinnu­tól, og hótar honum of­beldi með pipar­úða­brúsa, án þess að tón­listar­maðurinn hafi gert neitt annað en að standa uppi á sviði. Og það á við­burði sem tón­listar­maðurinn er ráðinn til að koma fram á.“

Sturla spyr hvort ekki sé eðli­legt að for­dæma þessa fram­komu og krefjast svara. „Hér ættu hags­muna­sam­tök tón­listar­manna að stíga inn í, for­dæma fram­komu lög­reglunnar og krefjast þess að lög­reglan endur­skoði þessa vinnu­ferla sína. Yfir­gengi­leg hegðun og eigin­lega bara grín­legt.“