Tónlistarmaðurinn Sigurbjartur Sturla Atlason, betur þekktur sem Sturla Atlas, fer hörðum orðum um framkomu lögreglu gagnvart rapparanum Ísleifi Eldi Illugasyni í sal Gróttu síðastliðið föstudagskvöld.
Ísleifur birti í gær færslu á Instagram þar sem hann sakaði lögreglumann um að hafa brotið skjá á tölvunni sinni. Ísleifur var að spila á bjórkvöldi sem áður hefur verið greint frá en foreldrar á Seltjarnarnesi lýstu yfir miklum áhyggjum vegna bjórkvöldsins og stöðu æskulýðsmála á nesinu.
Sturla Atlas tjáir sig um fréttir af málinu á Facebook og segir að í ljósi umræðu síðustu vikna sé mikilvægt að fordæma slíka framkomu lögreglu og skoða hana frekar.
„Lögreglan og ráðherra hafa verið að basúna áróðri um gengjastríð á Íslandi og bókstaflega lýst yfir stríði vegna þess – og nú á sko að ganga hart fram og taka á málunum,“ segir Sturla og vísar þar til ummæla Jóns Gunnarssonar, dómsmálaráðherra sem lýsti í síðustu viku yfir stríði gegn skipulagðri glæpastarfsemi.
Sturla segir að þarna verði tónlistarmaður fyrir því í miðri framkomu að lambhúshettuklæddur lögreglumaður brjóti tölvuna hans. „Sem jafnframt er hans mikilvægasta vinnutól, og hótar honum ofbeldi með piparúðabrúsa, án þess að tónlistarmaðurinn hafi gert neitt annað en að standa uppi á sviði. Og það á viðburði sem tónlistarmaðurinn er ráðinn til að koma fram á.“
Sturla spyr hvort ekki sé eðlilegt að fordæma þessa framkomu og krefjast svara. „Hér ættu hagsmunasamtök tónlistarmanna að stíga inn í, fordæma framkomu lögreglunnar og krefjast þess að lögreglan endurskoði þessa vinnuferla sína. Yfirgengileg hegðun og eiginlega bara grínlegt.“