Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir birti nýjan pistill á covid.is í kvöld þar sem hann fór yfir nýju reglurnar um sóttkví en þær breyttust fyrir helgi.
„Þann 7. janúar sl. tók gildi reglugerð nr. 3/2022 um sóttkví þríbólusettra vegna COVID-19. Með reglugerðinni er dregið úr takmörkunum á einstaklinga sem sæta sóttkví vegna COVID-19 ef þeir eru þríbólusettir gegn COVID-19 eða hafa fengið COVID-19 sjúkdóminn staðfestan með PCR prófi og að auki tvær bólusetningar,“ skrifar sóttvarnalæknir.
„Mikilvægt er að einstaklingar og fyrirtæki kynni sér vel þessar nýju reglur og setji sér verklag um hvernig vinnu þeirra sem falla undir ákvæði reglugerðarinnar verður háttað. Rétt er að árétta að þessar einstaklingar eru skráðir í sóttkví eins tíðkast hefur verið til þessa um sóttkví almennt og þurfa að fara í PCR sýnatöku á fimmta degi.“
Unnið er að fyrirkomulagi þar sem þeir sem undir reglugerðina falla geti sótt formlega staðfestingu á ákvæðum reglugerðarinnar.
Alls greindust 1.191 Covid-smit innanlands í gær samkvæmt bráðabirgðatölum frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra. Alls voru 44 prósent í sóttkví við greiningu.
Þá eru 10.326 nú í einangrun vegna Covid-19 en voru 10.040 í gær. Þá eru 9.732 nú í sóttkví en voru 10.037 í gær. Þá eru 744 í skimunarsóttkví en voru 681 daginn áður. Alls eru fimm prósent þjóðarinnar í einangrun eða sóttkví.
Ríkisstjórnin ákvað að framlengja núverandi sóttvarnaraðgerðir um þrjár vikur á fundi sínum í dag.
„Við ætlum að framlengja þær takmarkanir sem við höfum búið við núna síðastliðnar þrjár vikur, við framlengjum þær að tillögu sóttvarnalæknis algjörlega óbreyttar,“ sagði Willum Þór.
Framlengingin og ný reglugerð um skólahald taka gildi á morgun þegar núverandi reglugerð rennur út.