„Það er alveg stórkostlegt að sjá hvað pólska þjóðin hefur tekið vel á móti flóttafólkinu og hvernig mismunandi hjálparsamtök starfa saman,“ segir Kristjana Aðalgeirsdóttir, sem stödd er í pólsku borginni Kraká á vegum hjálparsamtakanna Shelterbox, sem sérhæfa sig meðal annars í húsnæðisaðstoð fyrir fólk sem hefur þurft að flýja heimili sín.

Borgin Kraká í Póllandi hefur orðið að eins konar miðstöð hjálparsamtaka sem standa í ströngu við að aðstoða flóttafólk frá Úkraínu.

„Það eru fánar úti um allt, bláir og gulir litir, sem stuðningur við úkraínsku þjóðina. Á veitingastöðum eru gul blóm, bundin með bláum borðum, á öllum borðum. Þennan stuðning við úkraínsku þjóðina sér maður mjög sterkt,“ segir Kristjana.

Stuðning við Úkraínumenn má víða sjá í Kraká.
Mynd/Kristjana Aðalgeirsdóttir

Átakanlegar sögur

Mikil samhygð hefur myndast, bæði hjá Pólverjum og Úkraínumönnum sem komist hafa í öruggt skjól. Kristjana tekur dæmi um prest sem stóð á lestarstöðinni í Úkraínsku borginni Lvív, sem er um 50 kílómetra frá landamærunum við Pólland.

„Þar stóð prestur í fullum skrúða og gaf túlípana til allra sem komu með lestinni. Hjá prestinum stóð kona sem hafði ferðast í blautum fötum með 11 ára son sinn í fimm daga, án þess að hafa sofið, loksins komin yfir landamærin. Nú hélt hún á túlípana, þakklát fyrir að hafa komist að landamærunum.“

Mæðgin sem gengið höfðu blaut og hrakin í fimm daga voru boðin velkomin til Póllands með túlípana.
Mynd/Alex Orme

Kristjana segir konuna hafa þurft að skilja 22 ára son sinn eftir, en vegna stríðsins er öllum karlmönnum á aldrinum 16 til 60 ára meinað að yfirgefa landið. „Hún var með hugann hjá honum, hvað tæki við hjá honum þarna megin við landamærin,“ segir Kristjana.

Kristjana þekkir mörg dæmi af börnum á flótta. „Við vissum af ungum strák sem var við landamæri Úkraínu og Moldóvu, faðir hans hafði komið honum til landamæranna og skrifað símanúmer á hönd stráksins. Strákurinn var síðan sendur labbandi með ókunnugu fólki yfir landamærin og vissi af ættingjum sem ættu þetta símanúmer á hönd stráksins. Þegar strákurinn komst yfir landamærin fékk hann aðstoð við að hringja í ættingjana og þeir komu síðan og sóttu strákinn,“ segir Kristjana og heldur áfram: „Svona er fólk að reyna á allan mögulegan hátt að komast í frið, að komast í öryggi.“

Íbúar opna heimili sín

Pólverjar sem búa nærri landamærunum hafa verið duglegir að bjóða fram aðstoð sína. „Fólk stendur við landamærin og býður fólk á flótta velkomið, það fær heita súpu, hlý föt og SIM-kort í símana sína. Fólk er líka að opna heimilin sín og að bjóða fólki gistingu í herbergjum og húsum,“ segir Kristjana. Það hafa ekki „enn þá“, eins og Kristjana orðar það, verið settar upp flóttamannabúðir í Póllandi en stjórnvöld vinna að því að allir sem komi geti fengið eins konar kennitölu svo fólk hafi aðgang að heilbrigðisþjónustu og börn geti sótt skóla.

Samhæfingarskrifstofa aðgerða SÞ í mannúðarmálum (UN OCHA) reiknar með því að um 12 milljón manns, sem er um 30% af íbúafjölda Úkraínu þurfi lífsnauðsynlega á mannúðaraðstoð að halda, en það er ein stærsta mannúðarkrísa frá síðari heimsstyrjöld.

Kristjana segir að í Lvív hafi safnast rúmlega 200 þúsund manns sem bíða eftir því að komast yfir landamærin til Póllands og að á hverjum degi bætist við um 50 þúsund manns. „Fólkið býr við erfiðar aðstæður í skólum, kirkjum og hvaða rýmum sem finnast þar sem fólk getur skýlt sér,“ segir hún.

Flóttafólk á lestarstöðinni í Przemysl í Úkraínu skammt frá landamærum Póllands.
Mynd/Alex Orme, ShelterBox

Kristjana segir starf hjálparsamtaka margþætt og þörfin sé þríþætt: „Það er í fyrsta lagi þörfin fyrir að aðstoða fólk sem er í Úkraínu og kemst ekki í burt. Í öðru lagi þarf að aðstoða fólk sem er komið að landamærunum, Úkraínumegin, og er að safnast saman við borgir eins og Lvív og þarf aðstoð við að klára ferðina. Í þriðja lagi þarf að aðstoða fólk sem er komið yfir landamærin og er orðið flóttafólk í Evrópu. Það fólk hefur aðrar þarfir, en oftast þarf það fjárhagslega aðstoð.“

Kristjana Aðalgeirsdóttir í Kraká.
Mynd/Aðsend

Mest er Kristjönu þó hugleikið hve mikill samhugur ríkir.

„Þessi samhugur og samhygð sem við finnum hjá öllum er alveg stórkostleg. Það er svo mikilvægt í svona krísu að finna hvernig mennskan kemur upp hjá fólki, þessi samhugur við að aðstoða náungann og hvernig hann birtist á margan hátt. Það er svo gott að vita að við getum öll gert eitthvað og að Íslendingar geti stutt og aðstoðað þær stofnanir sem standa að aðgerðum hérna, en líka taka svo vel á móti þeim flóttamönnum sem hafa komið til Íslands og munu koma til Íslands og sýna þeim samhygð. Það er verkefni sem við eigum öll að taka þátt í,“ segir Kristjana að lokum.