Berglind Guðmundsdóttir hefur frá árinu 2012 haldið úti uppskriftavefnum Gulur, rauður, grænn og salt sem notið hefur mikilla vinsælda. En Berglind er ekki aðeins ástríðukokkur því hún er einnig menntaður hjúkrunarfræðingur og er ein þeirra sem sneri aftur til starfa þegar heimsfaraldur skall á.

„Ég er búin að vera í COVID ráðgjöf hjá læknavaktinni í rúmt ár, en er núna í bólusetningunum,“ útskýrir Berglind, sem segir mikla stemningu myndast í Laugardalshöllinni þessa dagana þar sem þjóðin er bólusett í skömmtum.


Bólusetningavinnan gefandi


„Það er svo gefandi að vinna við þetta enda allir sem mæta svo glaðir. Það hefur verið gaman að fylgjast með öllu þessu ferli enda hefur maður upplifað fólk hrætt og vonlaust og í þessari miklu óvissu, yfir svo í það núna að lausnin sé í sjónmáli og jákvæðir tímar fram undan.“

Berglind segir það hafa verið kærkomið að sinna starfi hjúkrunarfræðingsins undanfarið, en hún hafði lengi einbeitt sér alfarið að starfinu í kringum uppskriftavefinn.

„Þó mér finnist mjög gott að vinna heima þá er það ekki hollt til lengdar enda verður maður svo sjálfhverfur. Þetta verkefni kom upp í hendurnar á mér og hefur verið yndislegt og þó svo álagið hafi á köflum verið mikið þá hentar tarnavinna mér vel. Auðvitað bjóst maður þó við því að þetta yrði skemmri tími,“ segir Berglind sem hefur undanfarið horft þrjá mánuði fram í tímann.

„Það er svo gefandi að vinna við þetta enda allir sem mæta svo glaðir."

Þar sem við Berglind sitjum yfir hádegismat á veitingastað í miðbænum og ræðum stemninguna í Laugardalshöllinni þar sem Sinfóníuhljómsveit Íslands lék fyrir bólusetta í vikunni, vindur starfsmaður staðarins sér að okkur. Hún segist ekki hafa komist hjá því að heyra að Berglind starfaði við bólusetningarnar, sjálf hafi hún mætt í vikunni og vildi einfaldlega þakka fyrir sig.


Matur fyrir sálina

Fyrir utan uppgripin í hjúkrunarstarfinu undanfarið hefur Berglind verið sjálfstætt starfandi lengi og eðli málsins samkvæmt er mismikið að gera.

„Stundum hugsa ég að ég ætti að sækja um venjulegt starf en yfirleitt þegar ég ætla að fara að gera það, kemur eitthvað upp sem togar mig til baka. Ég elska það sem ég er að gera enda mjög fjölbreytt,“ segir Berglind, sem hefur verið dugleg við að skapa sér tækifæri og nýjasta útspilið er hlaðvarp sem nefnist Matur fyrir sálina. „Þar ræði ég við gesti um andleg málefni sem ég hef mikinn áhuga á. Ég vil að hlaðvarpið virki hvetjandi og þar fái ólíkar raddir að heyrast.“

Berglind segist stundum íhuga að sækja um venjulegt starf enþá komi eitthvað upp sem togi hana til baka. Fréttablaðið/Anton Brink

Matarástríðan hefur fylgt Berglindi frá unga aldri.

„Ég var alltaf að baksa eitthvað í eldhúsinu, mömmu minni til mikillar mæðu, enda var ég ekki jafn dugleg að ganga frá eftir mig. Ég hef alveg reynt það en það bara býr ekki í mér, ég er svo spennt fyrir útkomunni að það tekst aldrei að ganga frá jafnóðum.

Hugmyndin að vefnum kom þegar Berglind kom heim frá Barcelona árið 2012.

„Þegar við komum heim í haustlægðina kom þessi hugmynd til mín. Þetta var eitthvað sem ég átti bara að gera frekar en að ég hafi ákveðið það. Ég trúi því að maður sé svolítið leiddur áfram,“ segir hún einlæg.

„Til að endast í þessu þarf að hafa ástríðuna. Maður verður að elska þetta,“ segir Berg­lind, en miklu skiptir að virknin sé stöðug og fyrstu tvö árin lagði hún mikið upp úr því að birta minnst tvær til þrjár uppskriftir á viku.

Matur má vera fljótlegur

Berglind segist sækja sér innblástur víða og eins aðlaga hinar og þessar uppskriftir að sjálfri sér.

„Stundum fæ ég svo uppskriftir frá vinkonum og sumt kemur bara frá mömmu eða hefur fylgt mér heillengi. Eins fæ ég uppskriftir af erlendum síðum og merki þær þá þannig.“

Berglind segist hrifnust af Miðjarðarhafsmataræðinu. „Ég elska litríkan mat og þar sem ég er ekki dugleg að skreyta þá er það kostur að slíkur matur skreytir sig sjálfur. Ég hef líka áttað mig á því að matur er ekkert endilega betri þó maður sé lengi að matreiða hann. Ég elda í raun allt nema íslenskan mat,“ segir hún og hlær.

„Ég hef líka áttað mig á því að matur er ekkert endilega betri þó maður sé lengi að matreiða hann.

Talið berst að færni í eldhúsinu sem ekki sé öllum gefin og segir Berglind:

„Maður á að elta ástríðu sína og það er óþarfi að skammast sín fyrir að vera ekki góður í að elda. Ég er til dæmis ekki að fara að sjá um bókhaldið fyrir neinn,“ segir hún með áherslu.

Hún segist jafnframt birta uppskriftir án þess þó að skrifa mikið um þær eins og sumir vinsælir matarbloggarar geri. „Sumir geta samið ljóð um mat en ég er svo grófgerð að ég meira: „Hér er matur, hann er góður – borðaðu hann!“ segir hún og skellir upp úr.

Fór ein til Sikileyjar

Á fimmtudaginn birtist fyrsti þáttur af fjórum í þáttaröðinni Aldrei ein í Sjónvarpi Símans, en í þáttunum kynnir Berglind sér matarmenningu Sikileyinga.

Berglind hafði heimsótt Ítalíu í þónokkur skipti, en sumarið 2019 voru börnin hennar á leið í mánaðar sumarfrí til föður síns og hún vissi ekki hvað hún ætlaði sér að gera á meðan.

„Ég opnaði þá flugleitarvélina Dohop og skrifaði „Take me anywhere!“ Kom þá upp borgin Catania á Sikiley. Miðinn þangað kostaði bara rúmar 20 þúsund krónur svo ég ákvað að kaupa hann þó ég vissi ekki hvort ég færi.“

Tveimur dögum fyrir brottför var Berglind enn óviss en fyrir hvatningu vinkonu sinnar fór hún af stað með þá hugsun að þá kæmi hún bara fyrr heim ef henni líkaði ekki.

Berglind opnar kampavín með sverði á Gambini vínekrunni. mynd/aðsend

„Ég valdi mér svo gistingu í þrjá til fimm daga í einu og flakkaði þannig um alla eyjuna. Þetta var yndisleg ferð og ég naut mín ein á ferð. Það er í raun fyndið að þættirnir heiti Aldrei ein, því ég er alltaf ein,“ segir Berglind í léttum tón. „Ég vinn ein og er mikið ein, en er þó aldrei einmana,“ segir Berglind sem er einstæð, fjögurra barna móðir.

Hjörtu og dyr Sikileyinga opin

„Sikileyingar eru ótrúlegt fólk og mér var sífellt boðið í heimsóknir og mat til ókunnugra, en sjálf er ég ekki mikið að taka á móti ókunnugum og vil helst ekki fá óboðna gesti. Þessi munur fannst mér svo merkilegur, hér höldum við fundi á veitingastöðum en þeir vilja fá alla heim og eru alltaf með opið hjarta.


Ég fór til að mynda í mat til bændahjóna sem bjuggu í eins og hálfs klukkutíma fjarlægð frá mér. Þangað var yndislegt að koma, enda rækta þau sínar eigin sítrónur, appelsínur og kryddjurtir. Eftir kvöldverðinn tóku þau ekki í mál að ég pantaði mér bíl til baka heldur vildu foreldrar þeirra á áttræðisaldri endilega skutla mér, sem þau gerðu og hlógu alla leiðina. Ég efast um að ég væri til í að skutla vini unglingssonarins til Keflavíkur á miðnætti,“ segir Berglind í léttum tón.

Í þáttunum Aldrei ein kynnist Berglind matarmenningu Sikileyinga sem hún segir ótrúlegt fólk. Mynd/Aðsend

Það er augljóst að Berglind er heilluð af eyjunni og íbúum hennar.

„Sikileyingar tala litla ensku en langar svo að tala við mann og nota því mikið látbragð. Eyjan er líka enn svo ósnortin og ekki full af ferðamönnum.“ Berglind segist hafa verið hissa á því hversu mikinn fisk heimamenn borða, jafnvel tvisvar á dag. Sjálf viðurkennir hún að hafa stundum langað í eitthvað annað. „Þá þóttist ég vera vegan.“

Eftir þrjár vikur á Sikiley hélt Berglind aftur heim, reynslunni ríkari og langaði að miðla töfrum eyjunnar til samlanda sinna. Úr varð svo að í október síðastliðnum sneri hún aftur ásamt tökumanni og framleiðanda og má afraksturinn nú sjá í þáttunum Aldrei ein.