Júlía Guðný Hreinsdóttir sagði sögu sína í helgarblaði Fréttablaðsins um helgina en hún lauk nýverið við meistararitgerð við Háskóla Íslands um baráttusögu íslenska táknmálsins. Hún segir mikilvægt að gefa heyrnarlausu barni strax mál á meðan málstöðvarnar eru móttækilegar.

„Við sjáum það bara að þessi raddmálsstefna virkar ekki en tvítyngi er frábært,“ segir Júlía sem sjálf er tvítyngd, hún talar táknmál og skrifar og les íslensku auk þess að geta myndað raddhljóð. Raddmálsstefnan var notuð hér á landi sem og víða annars staðar í rúm 100 ár til ársins 1980. Þá var heyrnarlausum börnum ekki kennt táknmál heldur áttu þau að læra að tala og lesa af vörum.

Engir tveir eins

„Það er mjög mikilvægt að heyrnarlaust barn fái táknmál strax, hvort sem það notar heyrnartæki eða er með kuðungsígræðslu, enda heyra engir tveir heyrnarskertir nákvæmlega eins. Það er mikilvægt að nota allar leiðir til tjáningar. Slíkur tvítyngdur einstaklingur getur orðið mjög sterkur námslega enda styðja málin hvert annað. Ef barn fær ekki mál á fyrstu þremur árunum hefur það mjög mikil áhrif á hæfni þess til að læra. Við erum mörg heyrnarlaus sem erum ekkert mjög góð að lesa eða mjög góð í íslensku, enda fengum við ekki þennan grunn þegar við vorum yngri.“

Málstöðvar á sama stað

Viðhorfin gagnvart táknmáli eru þó misjöfn og segist Júlía skilja það að einhverju marki. „Það er auðvitað áfall að eignast heyrnarlaust barn og að barnið læri jafnframt tungumál sem þú ekki skilur. Ég skil mjög vel að heyrandi foreldrar vilji bara bara að barn þeirra læri að tala íslensku. En við vitum að vitsmunaþroskann þarf að örva strax og að málstöðvarnar fyrir táknmál og raddmál eru á sama stað í heilanum.“