Lagasetning er mikilvæg svo hægt sé að vernda börn gegn ofbeldi, að sögn Mörtu Santos Pais, sérlegs sendifulltrúa aðalritara Sameinuðu þjóðanna varðandi ofbeldi gegn börnum, á ráðstefnu Barnahúss sem haldin er í Hörpu í dag. Hún segir lagasetningu enga töfralausn en þó fyrsta skrefið til þess að takast á við vandann. 

Að auki skipti lagasetning börnin ekki síður máli því þannig sé þeim send skilaboð um að þau skipti máli og að brugðist verði við verði þau veitt ofbeldi. Þá sé einnig mikilvægt að börn skilji lögin og að þau séu túlkuð í barnvænt tungumál því annars séu þau of formleg og fráhrindandi. 

Íslenska fyrirmyndin innleidd í fjölda landa

Ráðstefnan er haldin í tilefni tuttugu ára starfsafmælis Barnahúss og kallast Barnahus A travelling idea – The 20th anniversary of Barnahus, sem gæti útlagst sem Barnahús „farandhugmynd“ – tuttugu ára afmælishátíð, en hugmyndin að baki íslenska Barnahússins hefur verið innleidd í fjölda landa víða um heim, þar á meðal Svíþjóð og Englandi. 

Marta flutti opnunarerindi ráðstefnunnar þar sem hún byrjaði á því að hrósa starfsfólki Barnahúss fyrir vel unnin störf. Síðan fór hún yfir ýmsar aðgerðaráætlanir SÞ, líkt og heimsmarkmið þeirra, og sagði börn ávallt þurfa að vera miðpunktur slíkra áætlana.

Hún sagði margt hafa áunnist frá því hún vann að drögum Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna fyrir um þrjátíu árum. Hún sagði mikilvægt að tekið sé tillit til barna þegar ný lög eru sett, þegar stofnanir eru settar á fót og að Ísland hafi hafi sett gott fordæmi með stofnun Barnahúss.

Marta sagði að mörgu sé hægt að fagna alþjóðlega eins og að nú byggi aðgerðaráætlanir fjölda landa á gögnum sem er safnað um börn, á viðtölum við börn sem sé gríðarleg breyting á aðeins fáum árum. Þær upplýsingar sem við miðum við í dag séu því áreiðanlegri.

Barn deyr á fimm mínútna fresti vegna ofbeldis

Marta fór yfir vandamál sem steðja að börnum í dag. Hún vitnaði til dæmis í nýlega skýrslu UNICEF þar sem fram kemur að á fimm mínútna fresti deyi barn vegna ofbeldis og að á hverju ári verði allt að 55 milljón börn fyrir andlegu ofbeldi. Þá fjallaði hún um að ofbeldi á hendur börnum byrji oft þegar þau eru ung að árum. Um 300 milljónir barna um allan heim á aldrinum tveggja til fjögurra ára verði fyrir andlegu og líkamlegu ofbeldi og að um 176 milljónir barna undir fimm ára aldri um allan heim verði vitni að ofbeldi á heimili sínu. 

Hún sagði að mikilvægt sé að bregðast við snemma því ofbeldi hafi gríðarleg áhrif á þroska barna og sérstaklega heila þeirra. Það geti haft áhrif á tungumálafærni þeirra og hvernig börn bregðast við fólki síðar á lífsleiðinni og komist yfir hindranir í lífinu. Börn sem upplifi ofbeldi mjög ung séu líklegust til að beita aðra ofbeldi og leiðast út í glæpi. Samfélagslegur kostnaður af því að bregðast ekki við sé að auki gríðarlegur. 

Þá greindi Marta frá því að nú vinni skrifstofa hennar að skýrslum um einelti og aðstæðum barna á flótta, Einelti sé gríðarlegt vandamál, og þá sérstaklega einelti á netinu. Níu af hverjum tíu börnum telji einelti á netinu vandamál og tveir þriðju þeirra hafi orðið fyrir því. Það sé sérstaklega slæmt því eineltið sé oft nafnlaust og það sem fari á netið geti valdið þeim skaða árum saman, enda erfitt að eyða efni út af netinu.

Rödd barna skipti máli

Marta fór um víðan völl í erindi sínu og sagði að ýmsu að huga þegar kemur að velferð barna. Þannig sé mikilvægt að raddir þeirra heyrist og að börn viti að þeirra rödd skipti máli. Þá sé Barnahús sérstaklega mikilvægt og að börn séu meðvituð um aðstoðina, að þjónustan sé barnvæn og að barn þurfi aðeins að segja sögu sína einu sinni.

Að lokum fór Marta yfir þau tækifæri sem eru fram undan fyrir bæði íslenska ríkið og önnur lönd. Á næsta ári verður Barnasáttmálinn 30 ára og hún hvatti til þess að ekki sé einungis haldið upp á afmælið með táknrænum hætti, heldur með aðgerðum.

Þá verður einnig á næsta ári í fyrsta skipti farið yfir heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og hvernig hverju landi gengur að uppfylla markmiðin. Þá sagði hún ánægjulegt að Ísland hafi, ásamt 40 öðrum ríkjum skuldbundið sig til að skila skýrslu um framgang mála hér á landi.

Marta hefur starfað fyrir Sameinuðu þjóðirnar og aðrar stofnanir þeirra í nærri þrjátíu ár. Lengi starfaði hún við rannsóknarsetur UNICEF, Innocenti, í Flórens en var árið 2009 skipuð sérlegur sendifulltrúi. Marta er lögfræðingur að mennt og er ein þeirra sem kom að samningi Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna árið 1989.

Tvær ráðstefnur í Hörpu

Barnaverndarstofa stendur fyrir Norrænni ráðstefnu um velferð barna (NBK2018) og forráðstefnu vegna 20 ára starfsafmælis hins íslenska Barnahúss dagana 5. til 7. september. Báðar ráðstefnurnar verða haldnar í Hörpu. Yfir 400 sérfræðingar frá Norðurlöndum og víðar eru skráðir á ráðstefnuna um velferð barna og á þriðja hundrað á afmælisráðstefnu um Barnahús.  

Heiða Björg Pálmadóttir, starfandi forstjóri Barnaverndarstofu, opnaði málþingið og sagði frá því að Barnaverndarstofa hafi komið að því að setja Barnahús á laggirnar. Hún sagði að hugmyndin bak við það væri barnvænt hús þar sem börn sem hefðu verið beitt kynferðislegu ofbeldi ættu athvarf, á þeirra forsendum. Hún sagði velgengni hússins umfram allt sem búist hafi verið við og að sigurinn væri fjölda barna á Íslandi og í Evrópu því líf þeirra væri öðruvísi vegna þess að þau hefðu fengið þjónustu í húsinu.

Á ráðstefnunni halda einnig erindi Bragi Guðbrandsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Barnaverndarstofu, forstöðumaður Barnahússins í Svíþjóð, Carl Göran Swedin, formaður Lanzarote-nefndarinnar, George Nikolaidis, en nefndin fjallar sérstaklega um ofbeldi gegn börnum og fjöldi alþjóðlegra sérfræðinga í málefnum barna. 

Dagskrá ráðstefnunnar er hægt að nálgast hér.