Innan skamms fer danski flug­herinn af landi brott en hann hefur verið hér við loft­rýmis­gæslu á vegum NATO síðan í um miðjan ágúst og nýtur við það að­stoðar Land­helgis­gæslunnar. Alls eru um 60 manns hér á vegum Dana. Fjöl­miðlum var boðið að skoða að­stæður, ræða við for­svars­menn flug­hersins og full­trúa sjó­hersins, sem verið hefur við kaf­báta­eftir­lit með hafinu kringum landið í tæpa sex mánuði. Hann fer af landi brott innan skamms en sjó­herinn hefur ekki fasta við­veru hér allt árið.

Líkt og gefur að skilja er mikil leynd yfir störfum NATO hér á landi og ekki oft sem fjöl­miðlum gefst tæki­færi til að skoða flug­stöðina og að­búnað her­sveita. Stjórn­stöð loft­rýmis­gæslunnar hefur verið endur­nýjuð mikið undan­farin ár og er sögð með þeim full­komnari. Þar vinna á annan tug manna á vegum gæslunnar.

Poseidon-kafbátaeftirlitsvél bandaríska sjóhersins er búin nýjustu tækni til kafbátaleitar.
Fréttablaðið/Anton Brink

Þrátt fyrir að inn­rás Rússa í Úkraínu breytti lands­laginu í varnar­málum Evrópu og NATO-ríkja vildu þeir sem rætt var við vegna loft­rýmis­gæslunnar ekkert segja um á­hrif þess á hana eða varnir banda­lagsins hér. Ekki fengust svör við þeirri spurningu blaða­manns hve langan tíma það tæki að senda F-16 vélar danska flug­hersins af stað ef raun­veru­leg hætta steðjaði að. Sú vél sem fjöl­miðlar fengu að skoða var full­hlaðin vopnum og virtist reiðu­búin til flug­taks innan skamms ef kallið kæmi.

Banda­ríski sjó­herinn er hér með tvær kaf­báta­eftir­lits­vélar af Boeing P-8 Poseidon gerð, sem byggja á Boeing 737-far­þega­vélum og eru með níu manna á­höfn. Kevin M. Harrington, yfir­maður flugs­veita banda­ríska sjó­hersins í NATO-flug­stöðinni í Kefla­vík, segir mikil­vægi Ís­lands fyrir eftir­lit með sjó og landi sí­fellt að aukast.

Ó­líkt loft­rýmis­gæslunni er kaf­báta­eftir­litið ekki á vegum NATO heldur er það í sam­ræmi við skuld­bindingar Ís­lands sem aðildar­ríki að banda­laginu og varnar­samning Ís­lands og Banda­ríkjanna frá 1951, þjóðar­öryggis­stefnu fyrir Ís­land og sam­komu­lag milli Ís­lands og Banda­ríkjanna frá 2016.

Fjöldi þeirra sem eru hér á vegum sjó­hersins er um hundrað en voru fyrr í sumar um 200. Hann segir sam­starfið við Land­helgis­gæsluna með besta móti. Gæslan sýni mikinn sveigjan­leika þegar hingað eru sendir stórir hópar frá sjó­hernum, oft með stuttum fyrir­vara. Utan­ríkis­ráðu­neytið fer með varnar­mál en Gæslan fram­kvæmir varnar­tengd verk­efni sam­kvæmt samningi við ráðu­neytið.

Kaf­báta­eftir­lit er stöðugt víg­búnaðar­kapp­hlaup, kaf­bátarnir verða sí­fellt hljóð­látari og eftir­lits­tæknin sí­fellt betri. Poseidon-vélarnar voru teknar í notkun árið 2013 og leystu af hólmi Lock­heed P-3 Orion-vélar sem sjó­herinn hóf notkun á árið 1961.

„Poseidon-vélin er hönnuð til hernaðar gegn skipum, söfnunar upp­lýsinga, njósna og eftir­lits en einkum og sér í lagi til hernaðar gegn kaf­bátum. Við leitum að kaf­bátum á stóru haf­svæði og ef þörf krefur getum við ráðist gegn þeim,“ segir Harrington. Það er ekki ó­al­gengt að hvalir finnist við leit að kaf­bátum, svo þróuð er eftir­lits­tæknin.

Fréttablaðið/Anton Brink

„Við leit notumst við einkum við baujur búnar hljóð­sjá sem varpað er í hafið og geta fundið kaf­báta. Einnig er rat­sjár­búnaður um borð ef ske kynni að kaf­báturinn komi að yfir­borðinu á­samt öðrum skynjurum.“ Í byrjun mánaðar var greint frá því í fjöl­miðlum að rúss­neskur kaf­bátur fannst í Mið­jarðar­hafi, senni­lega þangað kominn eftir siglingu í gegnum Norður-At­lants­haf. Er þær fréttir bárust mun það hafa komið kaf­báta­eftir­litinu lítið á ó­vart.

Vélarnar eru ekki ein­vörðungu til eftir­lits, þær geta einnig borið vopn, til að mynda Harpoon-flug­skeyti gegn skipum og tundur­skeyti gegn kaf­bátum. Oftast fljúga vélarnar einar síns liðs en fá fylgd orrustu­þota ef þörf þykir enda ekki gerðar til á­taka í lofti.

„Við getum flogið ansi langt. Hefð­bundið verk­efni er átta til tíu tímar og sem betur fer er ís­skápur og ofn um borð á­samt öðrum þægindum. Við getum tekið bensín á lofti sem gerir okkur kleift að fljúga enn lengra en þær tólf þúsund sjó­mílur sem vélin getur flogið,“ segir hann. „Ég hef verið stað­settur úti um allan heim. Ís­land er klár­lega með þeim betri. Ég er búinn að vera hérna í sumar svo þú getur spurt aftur ef ég kem að vetrar­lagi.“