Danir hafa lengi verið efa­semda­fólk um Evrópu­sam­bandið en í dag halda þau til þjóðar­at­kvæða­greiðslu um hvort loks eigi að fylgja sam­eigin­legri öryggis- og varnar­mála­stefnu Evrópu­sam­bandsins. Dan­mörk hefur í þrjá ára­tugi verið undan­skilin stefnunni og kosið verður í dag um hvort eigi að snú þeirri á­kvörðun til þess að taka loks þátt í stefnunni. Danmörk hefur verið aðildarríki að Evrópusambandinu frá árinu 1973.

Dan­mörk er eina aðildar­ríki Evrópu­sam­bandsins sem hefur undan­þágu frá öryggis- og varnar­stefnunni, sú á­kvörðun hefur verið endur­skoðuð í kjöl­far á­rásar Rússa inn í Úkraínu. Norður­löndin þrjú, Dan­mörk Finn­land og Sví­þjóð, eiga það öll sam­eigin­legt að standa í endur­skoðun á öryggis­stefnu sinni. En Finn­land og Sví­þjóð sóttu um aðild að NATO 18. maí síðast­liðinn.

Þjóðar­at­kvæða­greiðslan sem fer fram í dag var til­kynnt 6. mars síðast­liðinn, einungis einni og hálfri viku eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Það fékk mörg ríki til þess að endur­skoða öryggis­stefnu sína.

Skoðana­kannanir sýna að Danir séu lík­legir til þess að vilja taka upp sam­eigin­lega öryggis­stefnu með Evrópu­sam­bandinu, það gæti haft hernaðar­leg á­hrif á ríkið jafn­vel þótt Dan­mörk sé eitt af stofn­ríkjum hernaðar­banda­lagsins NATO.

Kjörstaðir opnuðu klukkan átta að dönskum tíma, sex að íslenskum tíma, og búist er við fyrstu tölum klukkan níu í kvöld að íslenskum tíma.

Mette Frederiksen sagði Dani þurfa að vera í meiri samskiptum við nágranna sína á þeim tímum sem berjast þarf fyrir öryggi í Evrópu.
Fréttablaðið/EPA

Velta fyrir sér þýðingu stefnunnar

Margir hafa velt því fyrir sér hvort þetta hafi ein­hverja þýðingu fyrir aðildar­ríki NATO að taka upp sam­eigin­lega varnar- og öryggis­stefnu. Í um­fjöllun BBC svara þau hvers vegna þessi á­kvörðun skiptir Dani svona miklu máli.

Leið­togar Dan­merkur færa rök fyrir því að öryggis­að­stæður í álfunni hafi breyst eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Þau hafa kallað eftir því að Dan­mörk vinni enn frekar með Evrópu­sam­bandinu á þeim ó­friðar­tímum sem hafa komið upp skyndi­lega.

„Ég trúi því af öllu hjarta að við verðum að kjósa já. Á tímum þegar við þurfum að berjast fyrir öryggi í Evrópu þurfum við að vera í meiri samskiptum við nágranna okkar,“ sagði Mette Frederik­sen for­sætis­ráð­herra Dan­merkur.

Undan­þágan hefur þýtt að Danir hafa ekkert að segja um hvernig öryggis- og varnar­málum er háttað í Evrópu­sam­bandinu, þau geta ekki haft nein á­hrif á á­kvarðana­töku um þessi mál­efni og ekki fjár­magnað heldur. Ef Danir kjósa að taka um sam­eigin­legu stefnuna, þýðir það að þau þurfi að ganga strax í tvær hernaðar­legar að­gerðir sem Evrópu­sam­bandið stendur að. Önnur þeirra er í Bosníu og Hersegóvínu og hin er í Sómalíu.

Á­kvörðunin um sam­eigin­legu stefnuna er að lokum í höndunum á þjóð­þingi Dan­merkur, en ef þau á­kveða að kjósa með stefnunni fær Dan­mörk strax að­gengi að öðrum öryggis­tengdum stofnunum. Mette Frederik­sen benti á það í kapp­ræðum um mál­efnið að Danir væru ó­færir að starfa með aðildar­ríkjum Evrópu­sam­bandsins í bar­áttunni við net­á­rásir.

Morten Messerschmidt formaður danska þjóðarflokksins stendur á móti frekari samvinnu Danmerkur og Evrópusambandsins.
Fréttablaðið/EPA

Varnar­mál í Dan­mörku

Stjórn­völd í Dan­mörku tóku af­drifa­ríkar á­kvarðanir stuttu eftir inn­rás Rússa í Úkraínu, þjóðar­at­kvæða­greiðslan var kynnt og danska þingið sam­þykkti að auka fjár­magn sem fer til varnar­mála um það sem jafn­gildir milljarði banda­ríkja­dollara. Árið 2033 munu varnar­mál í Dan­mörku ná fjár­magni sem jafn­gildir 2 prósent vergri lands­fram­leiðslu, en það er staðall sem kemur frá NATO.

Kjörseðillinn sem Danir fá í hendurnar í dag.
Fréttablaðið/EPA

Munu Danir sam­þykkja?

Skoðana­kannanir segja að um 44 prósent dansks al­mennings séu fylgjandi því að taka upp sam­eigin­lega stefnu með Evrópu­sam­bandinu og einungis 28 prósent standa gegn þeirri á­kvörðun. Það eru þó margir sem eru enn þá ó­á­kveðnir um málið.

Kosninga­þátt­taka gæti skipt sköpum í þessari at­kvæða­greiðslu, búist er við sögu­lega lágri þátt­töku í kosningunum, en 4.3 milljón manns eru með at­kvæða­rétt.

Ellefu af fjór­tán stjórn­mála­flokkum sem sitja á danska þinginu eru hlynntir því að taka stefnuna upp. Þeir þrír flokkar sem standa gegn stefnunni hafa sögu­lega staðið gegn Evrópu­sam­bandinu, en þeirra helstu á­hyggjur eru að frekari öryggis­sam­band við Evrópu­sam­bandið muni grafa undan þeirri stöðu sem Dan­mörk hefur í NATO.