Um klukkan hálf ellefu í morgun voru björgunar­sveitir á Norð­austur­landi kallaðar út vegna tveggja strand­veiði­báta í vanda. Annar báturinn hafði orðið vélar­vana og var farinn að reka að landi þegar nær­staddur bátur kom honum til að­stoðar. Rákust bátarnir saman og leki kom að öðrum þeirra. Þetta kemur fram í til­kynningu frá björgunar­sveitunum.

Vegna þess var mikill við­búnaður hjá við­braðgs­aðilum á svæðinu. Björgunar­skipið Gunn­björg frá Raufar­höfn sigldi til móts við bátana tvo á­samt vösku liði björgunar­sveita- og slökkvi­liðs­manna sem fóru frá Þórs­höfn á hrað­skreiðum fisk­veiði­bát með öflugar dælur. Þá kom einnig nær­staddur bátur á vett­vang og sigldi með bátunum tveimur í átt til Þórs­hafnar.

Upp úr há­degi komu hóparnir sem fóru frá Þórs­höfn með dælur að bátunum og stuttu síðar var Gunn­björg einnig komin. Á­höfnin á björgunar­skipinu tók annan bátinn í tog á meðan unnið var að því að dæla sjó úr hinum. Var þá mikill sjór kominn í lest bátsins en engan sakað um borð í bátunum tveimur.

Um klukkan eitt í dag voru báðir bátarnir svo komnir í höfn á Þórs­höfn og var annar þeirra hífður strax á land.

Aðsend mynd/Björgunarsveitir
Aðsend mynd/Björgunarsveitir
Aðsend mynd/Björgunarsveitir
Aðsend mynd/Björgunarsveitir