Munur á hæstu og lægstu gjöldum fyrir skóla­vistun, síð­degis­hressingu og skóla­mat nemur 132 prósentum, þetta kemur fram í verð­lags­eftir­liti ASÍ sem kannaði breytingar á gjald­skrám fyrir skóla­dag­vistun, síð­degis­hressingu og skóla­mat milli ára hjá tuttugu fjöl­mennustu sveitar­fé­lögum landsins.

Gjöld fyrir skóla­dag­vistun, síð­degis­hressingu og skóla­mat hækkuðu hjá sex­tán af tuttugu sveitar­fé­lögum, lækkuðu hjá þremur og stóðu í stað hjá einu.

Gjöldin hækkuðu mest hjá Borgar­byggð, eða um 13,7 prósent. Næst mest hækkuðu þau hjá Grinda­víkur­bæ, um 5,3 prósent. Hjá Fjarðar­byggð lækkuðu gjöldin um 12 prósent, en þar var mesta lækkunin.

Heildar­gjöld fyrir þjónustu fyrir eitt grunn­skóla­barn árið 2022 var 132 prósentum hærra hjá Sel­tjarnar­nesi, þar sem þau eru hæst, en hjá Fjarðar­byggð, þar sem þau eru lægst. Hjá Sel­tjarnar­nesi eru gjöldin 45.843 krónur en hjá Fjarðar­byggð eru þau 19.782 krónur.

Sel­tjarnar­nes var einnig með hæsta verðið á skóla­mat, eða 11.781 króna, saman­borið við ekkert gjald hjá Fjarðar­byggð. Sel­tjarnar­nes er einnig með hæstu gjöldin fyrir skóla­dag­vistun með síð­degis­hressingu, en þau eru 139 prósent hærri en hjá Suður­nesja­bæ, sem er með lægstu gjöldin.

Öll tuttugu sveitarfélögin sem skoðuð voru eru með systkinaafslætti af gjöldum fyrir skóladagvistun. Kostnaður fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat fyrir foreldra sem eru með tvö börn í grunnskóla er 77.144 krónur á Seltjarnarnesi, 117 prósent hærri en í Fjarðarbyggð en þar er kostnaðurinn 35.516 krónur.

Sjá má súlurit frá ASÍ hér að neðan: