Mikil eftirspurn hefur verið erlendis eftir íslenskum lopa í faraldrinum og anna framleiðendur henni ekki nema að litlu leyti. Samkvæmt sænskum dagblöðum fá kaupendur að íslenskri ull ekki nema tíu prósent af því sem þeir þurfa.

Skorturinn hefur einnig áhrif hér heima og íslenskt prjónafólk á erfitt með að finna lopa „Við höfum ekki fleiri vélar. Það er ekki flóknara en það,“ segir Sigurður Sævar Gunnarsson, framkvæmdastjóri Ístex, sem safnar langsamlega mestu af ull á Íslandi.

„Við komum á kvöldvöktum til að reyna að mæta þessu en það hefur ekki dugað til.“Ullin er flutt til Blönduóss þar sem hún er þvegin og skipt í hráull og ull til lopa.

Í Mosfellsbæ er lopinn, sem er verðmætasta varan, búinn til en hráullin er meðal annars notuð í sængur og gólfteppaband.Sigurður segir eftirspurnina hafa aukist undanfarin þrjú ár og sérstaklega í faraldrinum.

„Í maí í fyrra tókum við eftir því að pantanirnar urðu stærri. Um áramótin urðu þær svo mun stærri en venjulega,“ segir hann. Þetta eigi ekki aðeins við um Svíþjóð heldur einnig Finnland, Þýskaland, Bandaríkin og fleiri lönd sem Ístex verslar við.

Helsta skýringin á þessari eftirspurn er áhugi á handavinnu í faraldrinum. Iðja sem hentar vel í félagsforðun og þykir góð fyrir andlega heilsu. Sigurður segir sögu íslenska lopans og eiginleika skýra vinsældirnar.

Reyna eftir fremsta megni að anna eftirspurn

Vegna eftirspurnarinnar hefur Ístex ákveðið að fjárfesta í fleiri vélum, sérstaklega í dokkudeildinni, en einnig að bæta við starfsfólki á kvöldvaktir. Þá hefur ein vél, sem notuð hefur verið til að búa til iðnaðarband fyrir ferðamannavarning, verið notuð til að framleiða lopa því ferðaþjónustan hrundi í fyrra.

Sigurður segir ómögulegt að segja til um hvenær afköst og eftirspurn verði komin í jafnvægi. „Ég segi alltaf sex mánuðir en svo bætist alltaf við,“ segir hann.

Aðspurður um verðið segir Sigurður einhverju hafa verið bætt á til að eiga fyrir nýjum vélum og tækjum en að öðru leyti hafi verðhækkanir ekki verið meiri en í venjulegu árferði.

Breytingar í landbúnaði hafa valdið því að sauðfé hefur ekki verið færra í landinu í meira en eina og hálfa öld. Þessi þróun hefur þó enn ekki haft áhrif á ullarvinnslu því ekki er skortur á hráull.

Samkvæmt Sigurði væri einnig hægt að nýta meira af lakari flokkum til lopavinnslu þegar fram í sækir.„Verðið á hráull er mjög lágt í sögulegu samhengi,“ segir hann.

„Í Noregi voru allir ullarflokkar til bænda settir í 0 krónur í haust. Hráullarmarkaðurinn er aðeins að lifna við en er enn mjög erfiður.“