Til stendur að fækka í framboði bíla hjá Renault og þá sérstaklega eldri gerðum sem nota eldri gerðir undirvagna. Alls eru 12 undirvagnar undir bílum Renault en til stendur að fækka þeim niður í fjóra. Það þýðir þó ekki að til standi að fækka frumsýningum nýrra bíla því að til stendur áfram að frumsýna 22 nýja bíla á næstu þremur árum. Á næstu þremur árum munu framleiðsluáætlanir dragast saman um 700.000 ökutæki, og hætt verður við stækkanir verksmiðja í Rúmeníu og Marokkó. Alpine sportbílaarmur Renault er undir hnífnum og er framtíð þess merkis óviss.

Hjá Nissan er staðan svipuð en þar á bæ er áætlað að framleiðsla verði skorin niður um 20%. Tap fyrirtækisins í fyrra nam 8950 milljörðum króna og fyrirtækið hefur fyrir stuttu gengið í gegnum mikið hneyksli ásamt systurfyrirttæki sínu Renault með handtöku og síðar flótta fyrrum forstjóra samsteypunnar Carlos Ghosn. Loka þarf verksmiðjum í Barcelona og Indónesíu en verksmiðja Nissan í Sunderland í Bretlandi sleppur við niðurskurðarhnífinn. Renault ætlar á móti að sækja fram á rafbílamarkaði og auka samstarf milli fyrirtækjanna og nýjum samstarfsaðila Mitsubishi, og munu merkin deila bæði undirvögnum og vélbúnaði. Alls eru 12 nýir bílar væntanblegir frá Nissan á næstu 18 mánuðum en sumir þeirra eru hugsaðir fyrir markaði í Norður-Ameríku, Kína og Japan þar sem fyrirtækið vill sækja fram. Nissan hefur einnig staðfest að lögð verður áhersla á bíla í C og D stærðarflokki, rafbíla ins og áður sagði auk Z sportbílsins. Nýjar gerðir X-Trail og Qashqai eru hluti þessarar áætlana.