Nærri þrefaldur munur er á kostnaði við hvert leikskólabarn innan sveitarfélaga. Mestur er kostnaðurinn hjá Reykhólahreppi á Vestfjörðum, 4.887 krónur daglega á hvert barn. Hjá Tálknafjarðarhreppi er kostnaðurinn aðeins 1.715 krónur.
Þetta kemur fram í svari Ásmundar Einars Daðasonar menntamálaráðherra við fyrirspurn Lilju Rannveigar Sigurgeirsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.
Að meðaltali er kostnaður sveitarfélaganna 2.435 krónur, þegar búið er að draga þjónustukostnaðinn frá og innri leigu.
Á höfuðborgarsvæðinu er kostnaðurinn hæstur hjá Seltjarnarnesbæ, 3.082 krónur, en lægstur hjá Mosfellsbæ, 1.945 krónur. Hjá Reykjavíkurborg, Hafnarfjarðarbæ og Kópavogsbæ er kostnaðurinn í kringum 2.500 krónur.
Af fjölmennari sveitarfélögum landsins er kostnaðurinn einna lægstur hjá Akraneskaupstað, Akureyrarbæ og Reykjanesbæ.